Bodegas Roda Reserva 2013

Meira Rioja!

Enn og aftur kemur umsögn um frábært Rioja-vín!  Í vor fór Vínklúbburinn í 25 ára afmælisferð til Rioja (ég á enn eftir að segja þá ferðasögu…) og þar fórum við m.a. í heimsókn til Bodegas Roda og fengum frábærar móttökur.  Frúin átti svo afmæli nú í vikunni og því var elduð veislumáltíð – grilluð nautalund með öllu tilheyrandi.  Með því þótti tilvalið að opna eina Rioja og þar sem hún er auðvitað orðin góðu vön þá varð vín frá Roda fyrir valinu.

Vín dagsins

Eins og fram kemur að ofan er vín dagsins frá Rioja, nánar tiltekið frá Bodegas Roda.  Eigandi Roda, Mario Rotllant, er mikill Íslandsvinur og veit fátt betra en að renna fyrir laxi í íslenskum ám.  Svo mikil er ástríðan að eitt af vínum Roda er nefnt eftir einni uppáhaldsá – Selá.  Vín dagsins er þó samnefnt víngerðinni og nefnist einfaldlega Roda.

Bodegas Roda ReservaBodegas Roda Rioja Reserva 2013 er dökkkirsuberjarautt á lit, með byrjandi þroska. í nefinu eru kirsuber, plómur, leður og tóbak. Í munni eru stinn tannín, góð sýra og flottur ávöxtur. Leður, kirsuber, tóbak og ögn af pipar í þéttu og góðu eftirbragðinu.  Frábært vín með nautasteikinni.  Mjög góð kaup (4.590 kr í vínbúðunum, 3.999 kr í Fríhöfninni). 92 stig

Vinir á Facebook