Hálfsætur Spánverji

Hammeken Cellars nefnist tiltölulega ung víngerð á Spáni, stofnuð 1996.  Þeir leggja áherslur á víngerð úr spænskum þrúgum en í nýjaheims-stíl, ef svo má að orði komast.  Vín þeirra hafa hlotið ágæta dóma hjá Robert Parker, Wine Spectator og fleiri víngagnrýnendum, og því gleðiefni að vín þeirra séu nú fáanleg hérlendis.
Vín dagsins er, eins og nafnið gefur til kynna, gert úr þrúgunni Monastrell en þær eru ekki tíndar fyrr en í nóvember, þegar þrúgurnar hafa þornað nokkuð og sykurmagnið því orðið nokkuð hátt.  Útkoman verður vín í sætari kantinum, nokkuð í ætt við Appassimento og Ripasso frá Ítalíu, sem hafa fallið vel í kramið hjá íslenskum vínáhugamönnum.  Vínið er geymt í 6 mánuði á tunnum úr franskri og amerískri eik.
Hammeken Cellars Pasas November Harvest Monastrell Jumilla 2015 er dökkkirsuberjarautt á lit, unglegt að sjá.  Í nefinu finnur maður plómur, leður, pipar , rúsinur og ameríska eik.  Í munni eru góð tannín, fín sýra og þéttur ávöxtur. Rúsinur, sultutau og súkkulaði ráðandi í eftirbragðinu. Góð kaup (2.190). 88 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook