Góður portúgali

Ein mikilvægasta þrúgan í Portúgal heitir Touriga Nacional.  Hún gegnir lykilhlutverki við framleiðslu púrtvína en seinni ár hafa gæði hennar við rauðvínsgerð komið betur og betur í ljós.  Þrúgan er oft á ferð ásamt Touriga Franca og þeirri blöndu hefur oft verið líkt við blöndu Cabernet Sauvignon og Cabernet Franc þar sem fyrri þrúgan gefur víninu byggingu en sú seinni gefur fyllingu.  Ekki ætla ég að hafa mörg orð um þessi sambönd…
Vín dagsins er eingöngu úr Touriga Nacional og kemur frá héraðinu Lisboa (áður Estremadura).  Að lokinni gerjun er vínið látið þroskast í 3 mánuði á flöskum áður en það er sett í sölu.
Escada Touriga Nacional 2016 er dökkrúbínrautt á lit, með fallegum fjólubláma og ágætum taumum.  Í nefinu eru kirsuber, skógarber, plómur og vottur af myntu.  Í munni eru smá tannín, ágæt sýra og fínn ávöxtur, með skógarberja- og kryddkeimi, örlítið sætt í eftirbragðinu.  Hentar vel sem fordrykkur eða kjötréttum, jafnvel fiski, einkum í Miðjarðarhafsstíl.  Góð kaup (1.999 kr).  87 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook