Traustur Montecillo

Vínin frá Montecillo hafa verið fáanleg í vínbúðunum nánast frá því ég man eftir mér, og því augljóst að íslendingum falla þau vel í geð.  Það skyldi engan undra því þessi vín hafa verið mjög traust og áreiðanleg í gegnum árin.
Ég keypti mér lambaskrokk fyrir skömmu og ákvað að hægelda annað lærið – það fór inn í ofn um hádegisbil og var alls í tæpar 6 klst í ofninum.  Útkoman var hreint út sagt stórkostleg, og með þessu frábæra lambi af Ströndunum opnuðum við Montecillo Reserva 2010, sem hefur (líkt og svo mörg önnur vín úr sama árgangi) fengið mjög góða dóma.  Árið 2010 var einstaklega hagstætt spænskum vínbændum og við höfum fengið að njóta Crianza-vínanna að undanförnu og Reserva-vínin hafa einnig verið fáanleg í vínbúðunum.  Gran Reserva fara bráðum að sjást og er það mikið tilhlökkunarefni.
Montecillo Rioja Reserva 2010 er fallega kirsuberjarautt og með smá þroska.  Í nefinu finnur maður kirsuber, steinefni, leður og steinefni.  Í munni eru góð tannín og fín sýra, þéttur ávöxtur.  Kirsuber og mjúkir leðurtónar í eftirbragðinu.  Frekar mjúkt Riojavín.  Mjög góð kaup (2.599 kr). Ætti að halda sér vel næstu 4-6 árin. Passar mjög vel með lambi og nautasteik. 89 punktar.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook