Opus One

Það er ekki á hverjum degi að maður smakkar stjörnuvín en það gerðist um daginn þegar ég opnaði flösku af Opus One.  Opus One er eitt þekktasta vínið frá Kaliforníu og byrjaði sem samstarfsverkerni Robert Mondavi og barónsins Phillipe de Rothschild.  Það eru bráðum 20 ár síðan ég smakkaði þetta vín í fyrsta skipti og þegar ég smakkaði það aftur var það eiginlega nákvæmlega eins og ég mundi eftir því.  Það sem einna helst hefur breyst á þessum tæpu 20 árum er verðið, því vínið er nú margfalt dýrara en það var hér áður fyrr.  Flest þessi stjörnuvín eru fokdýr en jafnvel hinn venjulegi vínáhugamaður getur leyft sér að prófa þessi vín einhvern tíma á lífsleiðinni.  Ef verðmiðinn er of hár fyrir einstakling geta menn tekið sig saman og lagt í púkk fyrir einni flösku eða svo…
Opus One Napa Valley 2008 er blanda Cabernet Sauvignon, Petit Verdot, Merlot, Cabernet Franc og Malbec.  Það er dökkrúbínrautt á lit, með byrjandi þroska.  Í nefinu eru plómur, leður, kirsuber, pipar, amerisk eik, ögn af anís, mynta og kúrennur. Í munni eru stinn tannín, flottur ávöxtur, fullkomið jafnvægi. Kirsuber, plómur og amerísk eik, dökkt súkkulaði í löööngu eftirbragðinu.  Stórfenglegt vín. 96 stig.

Vinir á Facebook