Styttist í vín ársins

Það styttist í vín ársins hjá Wine Spectator – á morgun verður tilkynnt hvaða vín hlýtur þennan eftirsótta titil, en þetta verður í 30. skiptið sem tímaritið útnefnir vín ársins.  Þegar þetta er ritað er búið að tilkynna hvaða vín erum sætum 2.-10., en ekkert af þeim er að finna í íslenskum vínbúðum.  Það er svo sem ekki á hverju ári að slíkt gerist, en hér er þó hægt að nálgast nokkur vín sem hafa áður ratað inn á topp 10, s.s. E. Guigal Chateauneuf-du-Pape, Tignanello frá Antinori, Cune Imperial Gran Reserva og E. Guigal Cote-Rotie Brune et Blonde.
En það eru fleiri en Wine Spectator sem útnefna vín ársins.  Vínrýnirinn James Suckling valdi Almaviva 2015 frá Chile sem vín ársins, og á topp-100 lista hans má m.a. finna vín á borð við Montes Alpha M 2015 (fæst í Fríhöfninni, þó líklega er þessi árgangur ekki kominn) og Don Melchor 2014 (eldri árgangur fæst í vínbúðunum).
Vefsíðan Wine Enthusiast (www.winemag.com) gefur út árlegan lista yfir bestu kaup árins og einnig 100 bestu vínin ætluð til geymslu.  Á listanum yfr bestu kaup árins má finna eitt vín sem er í hillum vínbúðanna – hið þýska Villa Wolf Pinot Gris 2015 er í 15. sæti, fær 90 stig í einkunn og fyrir litlar 1.999 krónur eru það mjög góð kaup (ég á þó eftir að prófa þennan árgang). Listann yfir 100 bestu kaup ársins að mati Wine Enthusiast finnið þið hér
Það hefur líka verið hefð á Vínsíðunni í mörg ár að velja vín ársins á Íslandi og að venju verður valið tilkynnt um áramótin.
En á morgun fáum við sem sagt að sjá hvaða vín hlýtur titilinn Wine of the Year hjá Wine Spectator, og svo kemur topp-100 listinn þeirra á mánudaginn, og þá munum við sjá hvort eitthvert vínið á listanum fáist hér.

Vinir á Facebook