Bestu kaupin í Ríkinu?

Nýlega kom í hillur vínbúðanna Cabernet Sauvignon Grand Estates frá Columbia Crest, en sú víngerð er staðsett í Washington-ríki í Bandaríkjunum.  Þetta vín hefur áður verið fáanlegt í vínbúðunum en var svo ófáanlegt um nokkurt skeið.  Það er gleðiefni að það sé aftur fáanlegt, enda ein bestu kaupin í vínbúðunum.  Bandarískar reglur kveða á um að vín þurfi að innihalda a.m.k. 75% af þeirri þrúgu sem getið er um í nafni vínsins, en það er leyfilegt að allt að 25% séu aðrar þrúgur, og í þessu tilviki einhver hluti þrúganna Merlot og Cabernet Franc.  Vínið er látið liggja í rúmlega hálft ár á eikartunnum áður en það er sett á flöskur.
Columbia Crest Cabernet Sauvignon Columbia Valley Grand Estates 2014 er dökkrúbinrautt á lit, unglegt með góða dýpt.  Í nefinu eru kirsuber, jarðarber, leður, vanilla og plómur.  Í munni góð tannin, hæfileg sýra, flottur ávöxtur, plómur og súkkulaði í þéttu og næstum rjómakenndu eftirbragði. Frábær kaup (2.599 kr). Hentar vel með nauti og lambi. 92 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook