Gott lífrænt frá Ítalíu

Vínhús Serego Alighieri á sér langa og merka sögu sem nær aftur til miðalda.  Upphaflega voru þetta þó tvö fjölskylduvínhús – annars vegar Serego-fjölskyldan í Toscana og hins vegar Alighieri-fjölskyldan (sem rekur ættir sínar víst aftur til skáldsins Dante Alighieri) frá Veneto.  Þegar svo þessar tengdust í gegnum hjúskap runnu vínhúsin saman í eitt. Vínhúsið hefur svo verið í samstarfi við Masi-fjölskylduna og meðal annars gert hið stórfenglega Vaio Armaron sem er Amarone-vín eins og þau gerast best.  Vín dagsins er þó ekki Amarone heldur óvenjuleg blanda þrúganna Sangiovese, Canaiolo og Ciliegiolo. Vínið er auk þess lífrænt og eitt af þeim betri sem ég hef smakkað þegar lífrænt gerð vín eru annars vegar.  Nafn vínsins vísar til vínekrunnar þaðan sem þrúgurnar koma – Poderi del Bello Ovile.
Serego Alighieri Poderi BellOvile Toscana 2015 er dökkrúbinrautt, ungt að sjá og fallegt í glasi.  Í nefinu finnur maður bláber, plómur, kirsuber, krydd og apótekaralakkrís.  Í munni eru svo hrjúf tannín, góður ávöxtur, bláber og skógarber. Fínt með grillmat (lamb), kraftmiklum pastaréttum og ostum. Góð kaup. 88 stig

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook