Tuddavín

Það eru kannski ekki margir lesendur Vínsíðunnar sem kannast við þrúguna Monastrell.  Líklega kannast þó fleiri við þrúguna Mourvedre, sem er annað heiti á þessari sömu þrúgu – hún heitir Monastrell á Spáni en Mourvedre í Frakklandi (og fleiri stöðum).  Þessi þrúga er algeng í Vínum frá Rhone, Provence og Corbieres í Frakklandi, og hún er einmitt hluti af hinu fræga GSM-tríói (Grenache, Syrah, Mourvedre) sem hefur gefist vel í Frakklandi og Ástralíu.  Á Spáni er þrúgan hins vegar uppistaðan í vínum frá Alicante og Jumilla, en vín dagsins kemur einmitt frá Jumilla, frá framleiðanda að nafni Casa Rojo, en vínhúsið á vínekrur víða á Spáni.  Nöfnin á vínum Casa Rojo er í frumlegri kantinum – The Invisible Man (frá Rioja), Alexander vs the Ham Factory (Ribera del Duero) og svo vín dagsins – Macho Man!  Vínin hafa flest verið að fá fínar umsagnir og góðar einkunnir, en fyrir utan Macho Man þá eru Maquinon (Priorat), La Marimorena (hvítt frá Riax Baixas) og El Gordo del Circo (frá Rueda) fáanleg í vínbúðunum, en þessi 3 fengu öll 90 stig hjá Wine Spectator.
Vín sem gerð eru úr Monastrell eru í raun ekki mjög ólík vínum úr Cabernet Sauvignon – góð fylling og ávöxtur, og rífleg tannín sem þurfa yfirleitt smá tíma í eikartunnum til að mýkjast upp.  Fyrir þá sem vilja lesa meira um þessa þrúgu má benda á hina ágætu síðu Wine Folly.
Macho Man Monastrelll Jumilla 2014 er rauðfjólublátt á lit, með angan af bláberjum, rauðum berjum og ferskum kryddjurtum.  Í munni eru ágæt tannín, hins vegar fullmikil sýra fyrir minn smekk. Kirsuber og krydd/pipar í eftirbragðinu.  Hentar vel með tuddanum, hvernig sem hann er eldaður! (2.799 kr). 84 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook