Klassískt amerískt Chardonnay

Ég hef löngum verið pínu veikur fyrir amerísku Chardonnay, einkum frá Kaliforníu.  Það er þó staðreynd að vínin frá Washington-fylki gefa Kaliforníuvínunum lítið eftir.  Vínhúsið Columbia Crest er ekki mjög gamalt þegar vínhús eru annars vegar, stofnað 1983, en þrátt fyrir ungan aldur hefur vínhúsið náð að eiga vín ársins hjá Wine Spectator – Columbia Crest Reserve Cabernet Sauvignon 2005 var vín ársins árið 2009.
Vín dagsins er dæmigert bandarískt Chardonnay (reyndar er örlitlu Riesling bætt út í), sem er látið liggja í 9 mánuði í nýjum og notuðum amerískum eikartunnum.  Fimmtungurinn er þó látinn liggja í stáltönkum í stað eikartunna, til að draga fram meiri blómakeim í vínið.  Sumarið 2014 mun hafa verið með þeim heitustu í nokkra áratugi í austurhluta Washington og vaxtarskilyrðin almennt góð þetta árið.  Þetta vín hefur að jafnaði verið að fá 87-90 stig hjá Wne Spectator.
Columbia Crest Grand Estates Chardonnay 2014 er fallega gullið í glasi, með angan af perum, aspas, suðrænum ávöxtum og eik.  Í munni er vínið smjörkennt, með keim af greipaldin, suðrænum ávöxtum, smá karamellu og eik.  Fer vel með fiski, ljósu fuglakjötu og hvítmygluostum. Góð kaup (2.599 krónur). 88 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook