Það jafnast ekkert á við gott Chablis

Þekktustu hvítvín heims eru án efa vínin frá Chablis í Búrgúndí í Frakklandi, og varla nokkur maður sem á annað borð drekkur léttvín sem ekki hefur smakkað Chablis.  Þessi vín koma frá áðurnefndu héraði og saga víngerðar í Chablis nær yfir a.m.k. 900 ár.
Chablis er skipt niður í 4 meginsvæði skv. AOC-flokkun héraðsins.  Efst í virðingarstiganum eru Grand Cru-vínekrurnar, sem eru allar á alls 100 hektörum í einni hlíð í nágrenni þorpsins Chablis, en þessar 7 ekrur þykja bjóða bestu vaxtarskilyrðin fyrir Chardonnay-þrúguna sem er eina þrúgan sem nota má í ekta Chablis. Næst í virðingarstiganum eru Premier Cru-vínekrurnar, sem eru 40 talsins og ná yfir 750 hektara lands. Þá koma almenn vín sem flokkast sem AOC Chablis, en vínkekrur í þessum flokki ná yfir tæplega 2.900 hektara.  Neðst í virðingarstiganum er svo Petit Chablis á rúmlega 500 hektörum.
Vín dagsins er Premier Cru, frá vínekrur sem nefnist Fourchaume.  Framleiðandinn, La Chablisienne, er samvinnufélag um 300 vínbænda sem saman framleiða vín undir þessu merki.
La Chablisienne Chablis Premier Cru Fourchaume 2014 er ljósgullið á lit og fallegt í glasi.  Í nefinu eru sítrónur, perur, melónur og græn epli ásamt vott af eik.  Í munni er góð sýra og ávöxtur, fín fylling með keim af sítrus og grænum eplum.  Langt og gott eftirbragð.  Góð kaup (3.699 kr). Steinliggur með humri, skelfiski, þorski og góðum fiskréttum. 89 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

 

Vinir á Facebook