Eitt ágætt af vinstri bakkanum

Líkt og ég sagði í síðustu færslu þá jafnast ekkert á við gott Chablis og svipað má segja um rauðvínin frá Bordeaux að þau eiga sér fá jafningja þegar þau eru upp á sitt besta.  Árið 2014 var mjög gott í Bordeaux og árgangurinn sá besti síðan 2010.  Reyndar munu 2015 og 2016 vera enn betri og við höfum því fulla ástæðu til að hlakka til þegar þessir árgangar fara að sína sig í hillum vínbúðanna.
Vínhúsið Chateau d’Agassac rekur sögu sína aftur til ársins 1238, en elstu byggingar óðalsins eru frá þeim tíma.  Fáar sögur fara af því hvort fyrsti óðalsbóndinn hafi stundað mikla víngerð, en kjallarinn sem hann lét grafa út er enn í dag notaður til geymslu á vínum d’Agassac.  Vínhúsið framleiðir alls 6 mismunandi vín – 5 rauðvín (allt Cabernet Sauvignon-Merlot blöndur í mismunandi hlutföllum) og 1 rósavín (hreint Cabernet Sauvignon).
Chateau d’Agassac Haut-Medoc 2014 er kirsuberjarautt á lit, unglegt með fjólubláu ívafi.  Í nefinu eru plómur, kirsuber, anís og frönsk eik.  Í munni eru mjúk tannín, fín sýra og góður ávöxtur, dökk ber og súkkulaðikeimur í eftirbragðinu. Þarf að fá að anda góða stund eða fá frískandi umhellingu áður en það er drukkið. Hentar vel með villibráð og nautalund. Ágæt kaup (3.699 krónur, ath. það er 2011 árgangurinn sem er í hillum vínbúðanna). 88 punktar.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

 

Vinir á Facebook