Catena Alta Chardonnay

Eitt besta argentínska hvítvínið sem okkur stendur til boða í Vínbúðunum er Catena Alta.  Þetta er hágæðavín í dæmigerðum Nýja-heimsstíl, en sækir líka fágun í Gamla heiminn, því það er látið þroskast í 14 mánuði á stórum tunnum úr franskri eik (franska eikin gefur mildara eikarbragð en sú ameríska).  Það er hinn ágæti 2013-árgangur sem okkur hefur staðið til boða í hillum Vínbúðanna, en 2014 fer væntanlega að detta inn (ef hann er ekki þegar kominn) og það er sá árgangur sem fær umfjöllun hér.  Þetta vín hefur verið nokkuð stöðugt í gæðum undanfarin ár – undanfarin 20 ár hefur það ekki fengið færri en 88 punkta hjá Wine Spectator og hæst farið í 92.
Með þessum víndómi tek ég eitt skref til baka í einkunnagjöfinni (eða geri enn eina breytinguna), því ég hef ákveðið að halda áfram að gefa vínum stig og ekki bara stjörnur.  Til að fylgja alþjóðlegum stefnum í þessum efnum ætla ég líka að notast við Parker-skalann svonefnda, þar sem vín geta fengið allt að 100 stig sem hæstu einkunn.  Meira um þá stigagjöf á næstunni.
Catena Alta Chardonnay 2014 er gullið á lit, smá græn slikja, fallegir taumar. Í nefinu finnur maður kantalópmelónur, hunang, smá gúmmí og eik.  Í munni er vínið smjörkennt, með nokkuð áberandi eikarbragð, melónu, perur, rauð epli og marsipan. Kryddað eftirbragð.  Hentar vel með humri, lax og öðrum góðum fiskréttum. Góð kaup (3.699 kr) – 91 stig.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

 

Vinir á Facebook