Frábært vín í Fríhöfninni

112-3429Ég var á ferð um Fríhöfnina um síðustu helgi og tók þá með flösku af Santa Ema Amplus One Peumo 2010.  Þetta er blanda af Carmenere, Syrah og Carignan – sem sagt blanda af kröftugum þrúgum í kröftugum stíl.  Fyrri árgangar af þessu víni hafa verið að fá ágæta dóma (nánast alltaf á bilinu 88-90) og ég bíð spenntur eftir að sjá hvernig þessi kemur út.  Við prófuðum þetta vín sl. laugardagskvöld og ég varð alveg gríðarlega ánægður með það.  Það er dökkrautt, nánast svart í glasinu.  Í nefinu koma fram fíkjur, sólberjasulta, pipar og ögn af leðri, jafnvel smá negull.  Vínið hefur góða fyllingu, tannínin aðeins farin að mýkjast, jafnvægið prýðilegt og vínið heldur sér vel og lengi fram í eftirbragðið. Einkunn: 8,5.   Vínið kostar ekki nema 2.199 krónur í Fríhöfninni – Frábær kaup.  Því miður fæst það ekki enn í vínbúðum ÁTVR, en hver veit nema breyting verði þar á.
Það eru nokkur önnur vín úr þessari línu fáanleg í Fríhöfninni, m.a. Cabernet Sauvignon og Carignan í rauðu, ásamt Chardonnay og Sauvignon Blanc í hvítu.  Þessi vín hafa líka verið að fá mjög góða dóma – 88-90 stig, kannski einna helst að Sauvignon Blanc komist ekki alveg upp í sömu hæðir, en það kostar reyndar ekki nema 1.649 krónur og hlýtur því engu að síður að teljast prýðileg kaup.  Ég er a.m.k. að hugsa um að kippa með mér eins og einni Chardonnay næst þegar ég fer um Fríhöfnina, kannski eitthvað meira (það kostar líka bara 1.649 krónur – frábært verð!).

Vinir á Facebook