Flórídaferðin

Ég fór til Flórída í síðustu viku á ráðstefnu, sem var kærkomin tilbreyting frá íslenska vetrarveðrinu.  Á svona ferðum fer maður auðvitað út að borða og ég fór á ágæta staði í nágrenni hótelsins.
The prisonerÁ Coppar Canyon Grill gat ég ekki annað en fengið mér svínarif hússins, því ég er afskaplega veikur fyrir svínarifjum (líkt og áður hefur komið fram hér á síðunni) og þegar rifin eru „house specialty“ þá er erfitt að horfa fram hjá því.  Með rifjunum drukkum við The Prisoner 2012, en það er frá samnefndri víngerð (the prisoner winery) í Napa Valley, og úr nokkuð óvenjulegri blöndu – Zinfandel, Cabernet Sauvignon, Syrah, Petite Sirah og Charbono.  Þetta er dökkt og fallegt vín, með angan af kirsuberjum, leðri og smá kaffi.  Mikið af tanníni, sem er þó farið að mýkjast nokkuð og vínið er í góðu jafnvægi, heldur sér vel út í eftirbragðið.  Einkunn: 8,5.
Rodney Strong Charlotte's Home Sauvignon Blanc 2012Á Maggiano’s Little Italy, sem er í næsta húsi við Coppar Canyon Grill, fékk ég alveg frábært kálfakjöt með sítrónum og kapers.  Staðurinn er #35 yfir veitingastaði í Orlandi, skv. Tripadvisor og hann stendur alveg undir því.  Við fengum okkur öll mismunandi kálfakjöt og með því drukkum við Rodney Strong Charlotte’s Home Sauvignon Blanc 2013.  Þetta er ekki dæmigert sauvignon blanc eins og ég hef kynnst því, heldur er það aðeins mýkra, með aðeins minni sýru. Skýringin er hugsanlega sú að þetta vín er blandað úr sauvignon blanc-þrúgum sem koma frá 2 mismunandi svæðum – Alexander Valley og Russion River Valley.  Vínið er frekar ljóst og unglegt.  Í nefinu finnur maður ananas, greipaldin og smá graslykt og í munni vottar aðeins fyrir ferskjum.  Létt og skemmtilegt vín sem féll vel að matnum, en eftir á að hyggja hefði ítalskt pinot grigio kannski farið betur með kálfinum.  Ég var þó vel sáttur við þetta vín – einkunn 8,0.

Vinir á Facebook