Það jafnast fátt á við gott hvítvín

Þegar menn hugsa um frönsk hvítvín dettum flestum Chablis fyrst í hug.  Flest af bestu hvítvínum Frakklands koma líka frá Bourgogne, en þau eru ekki öll frá Chablis.  Frá flestum héruðum Bourgogne koma fyrirtaks hvítvín, en héruðin eru bara svo mörg, að það getur verið erfitt að hafa þau öll á hreinu!

Nýlega smakkaði ég þrjú hvítvín frá Bourgogne, öll frá Joseph Drouhin.  Þessi vín eru ekki enn komin í vínbúðirnar, en vonandi þurfum við ekki að bíða lengi eftir þeim.

Joseph Drouhin Saint-Romain Blanc 2013 er gullið og fallegt vín. Í nefinu finnur maður fyrst greipaldin, melónur, græn epli og steinefni ásamt fínum eikartónum. Vínið er þurrt, mætti hafa aðeins meiri sýru en er samt í góðu jafnvægi og heldur sér vel. Gott vín.  Einkunn: 8,0.  Saint Romain er í Côte de Beaune, en í þessari appellation, sem er ein sú yngsta í Bourgogne, er engin premier cru ekra, og þarna eru einkum framleidd rauðvín sem þurfa smá tíma til að verða aðgengileg.  Þetta hvítvín er hins vegar vel aðgengilegt nú þegar og hentar vel með feitum fiski og fuglakjöti.

Joseph Drouhin Mâcon-Villages Blanc 2013 er gyllt og fallegt vín. Í nefinu finnur maður greipaldin, hunangsmelónur, nýslegið gras og fína eikartóna. Þetta er frísklegt vín, með ágætis fyllingu og gott jafnvægi. Prýðilegt vín, sem hentar vel með feitum fiski og fuglakjöti.  Einkunn: 8,0. Mâcon-svæðið er sunnarlega í Bourgogne, nánar tiltekið í Mâconnais, sem er þekktast fyrir hvítvín.  Þekktust eru vínin frá Pouilly-Fuissé.  Um 70% vínanna eru hvít, og frá Mâcon-Villages koma eingöngu hvítvín.

Joseph Drouhin Rully Blanc 2013 svipar til tveggja fyrrnefndu vínanna í útliti og lykt, reyndar aðeins meiri steinefna- og eikarkeimur.  Hér finnst mér að mætti vera örlítið meiri sýra til að vega upp eikartónana, en jafnvægi er þó þokkalegt og vínið heldur sér vel út í eftirbragðið.  Hentar vel með fuglaköti, fiski og salati.  Einkunn: 7,5. Rully tilheyrir Cote Chalonnaise, er ekki ýkja stórt en þar eru engu að síður 23 premier cru vínekrur og 75% vínanna frá Rully eru hvít.

Vinir á Facebook