Vín ársins 2014 er…

Það þarf kannski ekki að koma á óvart að Vín Ársins 2014 kemur frá Douro-dalnum í Portúgal.  Þar hefur á undanförnum árum orðið sprenging í framleiðslu gæðavína og segja má að víngerð þar hafi nú náð nýjum hæðum.  Þar sem áður voru framleidd ódýr og óspennandi borðvín við hliðina á frábærum púrtvínum eru nú framleidd gæðavín frá nánast hverri ekru.  Vín ársins hjá Wine Spectator er púrtvín, en á topp 100-listanum í ár eru 3 af 4 efstu frá Portúgal.  Vínin þaðan eru alla jafnan á mjög góðu verði, að árgangspúrtvínum undanskildum.

Vín ársins smakkaði ég fyrst í vor og varð strax mjög hrifinn, svo mjög að ég taldi þetta strax vera ein bestu kaupin í Vínbúðum ÁTVR, enda kostaði það ekki nema 1.998 krónur.  Umsögn mín hljómaði á þessa leið:

Fallega rautt, unglegt að sjá og ekki mikill þroski sjáanlegur. Í nefinu er mikið af kirsuberjum og súkkulaði, vottur af pipar og kaffi sem kemur betur fram í bragðinu, sem er þétt og gott, fínt jafnvægi og langt eftirbragð. Ég gaf þessu víni 8,5 í einkunn og mæli hiklaust með því. Í dag sá ég svo að Wine Spectator gerir slíkt hið sama, gefur því einkuninna 91 stig og það er efst á listanum fyrir Best Values í víndómasafni júní-eintaksins. Vínið kostar ekki nema 1.998 krónur og hér á maður hiklaust að kaupa heilan kassa! Ein bestu kaupin í Vínbúðunum í dag!

Vín ársins 2014 á Íslandi er Altano Douro 2011.

Vinir á Facebook