Á að leyfa sölu bjórs og léttvína í verslunum?

Til stendur að leggja fram þingsályktunartillögu um að heimila sölu á bjór og léttvínum í matvöruverslunum.  Eins og við er að búast hafa menn æði misjafna skoðun á þessu – finna málinu allt til foráttu eða styðja tillöguna heils hugar.
Eigum við ekki að leyfa þetta?
Að sjálfsögðu, segja stuðningsmenn tillöguna.  Við lifum í forneskju og stöndum öðrum siðmenntuðum ríkjum langt að baki þegar áfengismenning er annars vegar.  Við eigum að geta farið í næstu verslun og keypt rauðvínið um leið og við kaupum lambakjöt á grillið, annað er mannréttindabrot.
Nei, bann er best! Öl er böl!
Andstæðingar tillögunnar óttast það mest að áfengisneysla muni aukast stórlega verði tillagan samþykkt, æska landsins muni eiga auðveldara með að nálgast áfengið og drekka frá sér ráð og rænu.  Framtíð Íslands mun skolast burt í áfengisflóðinu sem mun skella á landanum.
Er þetta svona einfalt?
Nei, segi ég – þetta er ekki svona einfalt.  Ég held að báðir þessir hópar hafi rangt fyrir sér.  Við eigum að halda í núverandi kerfi, kannski með smá tilslökunum, en mín rök fyrir því eru önnur.  Mín rök eru sjónarmið vínáhugamannsins sem vill hafa úr nógu að velja.  Þið sem hafið ferðast um heiminn þekkið sjálfsagt að í flestum nágrannalöndum okkar er hægt að versla bjór og vín í flestum matvöruverslunum.  Þið hafið þá væntanlega (vonandi) líka tekið eftir því að úrvalið er ekki upp á marga fiska.  Ég er sannfærður um að ef tillagan verður að veruleika þá munu allar stóru verslanakeðjurnar – Bónus, Hagkaup, Nóatún, 10-11 og hvað þær heita – bjóða upp á 10-15 tegundir rauðvín og 5-10 tegundir hvítvíns.  Það verða 2-3 freyðivínstegundir og rósavín verða væntanlega enn sjaldgæfari en þau eru í hillum vínbúða ÁTVR.  Þær tegundir sem búast má við að rati í hillurnar verða sennilega ekki í hæsta gæðaflokki, heldur má búast við að úrvalið verði einkum takmarkað við vín sem í dag eru að fara á undir 2.000 krónum.  Það verða líka einkum vín frá stóru heildsölunum – Vífilfell, Ölgerðin, kannski 2-3 til viðbótar – sem munu rata í hillurnar, því líklega ráða bara stóru heildsalarnir við að veita þann mikla afslátt sem verslanakeðjurnar fara fram á til að vörurnar verði á boðstólum í verslunum þeirra.  Ég er hræddastur við að vínbúðir ÁTVR muni hverfa að mestu leyti – það sem eftir stendur er sterkt vín en líklega verður minna af léttvíni og bjór á boðstólum.  Þau léttvín sem eftir verða í hillum vínbúðanna munu væntanlega seljast minna og minna, því flestir munu væntanlega grípa flöskuna ásamt mjólkinni og hveitinu í Bónus.  Viljum við að úrvalið okkar muni takmarkast við Carlo Rossi California Red, Black Tower Rivaner Riesling, Faustino VII, Gato Negro og Las Moras?  Munum við bara geta keypt Egils Gull og Carlsberg eða Tuborg, eins og á fyrstu dögum bjórfrelsising?  Hversu líklegt er að litlar vínbúðir muni spretta upp eins og gorkúlur, bjóðandi upp á allt hitt sem núna fæst aðeins í Heiðrúnu og Kringlunni?  Líkurnar á því að slíkar búðir muni lifa lengi eru ekki miklar, þegar þær verða í samkeppni við stórmarkaði og fá lítinn sem engan afslátt hjá heildsölunum.
Super BrugsenÍ Svíþjóð er ríkið með einokun á áfengissölu, líkt og á Íslandi.  Jafnvel í litlum byggðarlögum er úrvalið hið prýðilegasta, líkt og það er í flestum vínbúðum ÁTVR.  Í Danmörku er frjálsræði og flestir kaupa sín vín í Superbrugsen eða hvað þær heita, þessar stórmarkaðskeðjur í Danmörku (þar sem þú getur bara borgað með reiðufé eða með Dankort).  Vínbúðir er aðeins að finna í stærri bæjum og þær eru heldur ekki á hverju götuhorni.  Við munum reyndar fá tilboð vikunnar – Carlsberg á 25% afslætti ef þú kaupir kassa, og svo framvegis.  Ég verð þó sennilega í vandræðum með að fá minn Úlf nr.3 frá Borg ölgerð.
Ef við ætlum að leyfa áfengissölu í matvöruverslunum þá held ég að við þurfum að búa okkur undir vonbrigði, bæði stuðningsmenn og andstæðingar, en einkum við sem elskum góð vín.  Ef við líkjum þessu við kjötverslun, þá verður þetta eins og að hverfa frá stórum, ríkisreknum Gallerí Kjöt-búðum yfir í að framboðið verði alls staðar eins og í Nettó eða 10-11.  Stundum getur ríkiseinokun verið af hinu góða.

Vinir á Facebook