Þar fór kælirinn!

Árans!
Litli kælirinn minn gaf upp öndina í gærkvöldi.  Ég tók eftir að það hafði slokknað á kælunum og þegar ég ætlaði að kveikja á þeim aftur kom lítil neistaflug aftan úr litla kælinum.  Ég þorði auðvitað ekki að hafa hann lengur í notkun og tæmdi því það sem eftir var í honum yfir í stóra kælinn (reyndar full mikið sagt að kalla hann stóran, því hann rúmar ekki nema einhverjar 35 flöskur eða svo).  Því miður var hann ekki í betra ástandi en svo að hann gat tekið við öllu því sem í litla kælinum var og enn pláss fyrir 4-5 flöskur til viðbótar.  Litli kælirinn var reyndar kominn nokkuð til ára sinna og sennilega orðinn hátt í 10 ára gamall – ég keypti hann að mig minnir sumarið 2003 eftir að hafa misst nokkrar flöskur í hitasveiflum sumarið áður (ekki gott að geyma flöskur í skáp þar sem hitasveiflur geta verið yfir  10 gráður á sólarhring) – og hann hefur því enst ansi vel, m.a. þolað tvenna langflutninga.
Ég þarf því bráðum að fara að svipast um eftir nýjum kæli en líklega fær það þó að bíða þar til eldhúsið verður tekið í gegn (hvernær sem það nú verður) því Guðrún er búin að samþykkja að það verði innbyggður vínkælir í nýrri eldhúsinnréttingu!

Vinir á Facebook