Nýársannáll Vínsíðunnar

Alls var fjallað um 64 vín á Vínsíðunni á árinu 2009.  Nokkuð fleiri vín voru prófuð en því miður láðist að skrá sum þeirra.  Þá gleymdi ég nokkuð oft að gefa vínum einkunn, einkum á fyrri hluta ársins.  Hæstu einkunn hlaut Tignanello 2006 (9,0) en sum feiknagóð vín, s.s. Penfolds Grange 1993, fengu því miður enga einkunn.
Ein nýjung sem ég tók upp í sumar var bjórumfjöllun sem virðist hafa fallið í ágætan jarðveg og verður líklega haldið áfram á árinu 2010.
Vínsíðan tók upp nýtt útlit (einu sinni enn) á árinu 2009, en nú var munurinn sá að í stað þess að nota ókeypis sniðmát sem finna má hér og þar á netinu, þá keypti ég afnot af því sniði sem nú er í notkun og kallast Thesis.  Það býður upp á mikla möguleika varðandi útlit og innihald, þannig að kannski má sjá ýmsar aðrar nýjungar á Vínsíðunni á nýju ári.
Þá er ég mikið að hugsa um að breyta einkunnagjöfinni hér á Vínsíðunni og taka upp annað hvort 20 punkta kerfið, sem t.d. Decanter og Steingrímur Sigurgeirsson hafa notað, eða 100 punkta kerfið, sem t.d. Wine Spectator og Amaroneguiden.se nota.  Bæði kerfin bjóða upp á grafíska möguleika við einkunnagjöf sem mér finnst vera spennandi kostur.  Álit lesenda varðandi þetta eru vel þegin.
Heimsóknafjöldinn var nokkuð jafn á árinu.  Samkvæmt vefþjóninum mínum komu samtals 8308 einstaklingar í 27,198 heimsóknir, þar sem þeir skoðuðu 104,524 síður.  Þetta er aðeins meiri traffík en á árinu 2008 og ritstjórinn er auðvitað hæstánægður með það!

Vinir á Facebook