Vín ársins!

Jæja, þá er komið að því að útnefna vín ársins 2009.  Nokkuð mörg vín komu til álita að þessu sinni, flest þeirra í ódýrari kantinum, enda árið 2009 sannkallað kreppuár hjá neytendum en góðæri hjá mörgum framleiðendum sem hingað til hafa einkum framleitt vín í ódýrari kantinum.
Amalaya de Colomé 2007 kemur frá Calchaqui-dalnum í Argetínu, blanda Malbec, Cabernet Sauvignon, Syrah og Tannat.  Dökkrautt og fallegt vín, áberandi plómur, lakkrís og kúrennur.  Ódýrt og gott vín. Einkunn: 8,5 – Frábær kaup! (Verð 1990 ISK / 82 SEK)
Antinori Tignanello 2006 er frábær ofur-Toskani, og 2006-árgangurinn einn sá allra besti í sögu Tignanello.  Dökkrautt með mikla dýpt, þéttur ilmur af sólberjum og kaffi ásamt örlitlum ávaxtakeim.  Mikil og góð fylling, mikil en þó mjúk tannín og dásamlega langt eftirbragð.  Einkunn: 9,0 – Góð Kaup! (Verð 6699 ISK (Fríhöfn) / 499 SEK)
Dr. Loosen Riesling QbA Mosel-Saar-Ruwer Dr. L 2008 er létt og skemmtilegt riesling-vín, hálfsætt með keim af mangó og apríkósum.  Ódýrt og skemmtilegt vín.  Einkunn: 8,5 – Frábær Kaup! (Verð – ISK / 79 SEK)
Bodega Catena Zapata Malbec Mendoza 2007 er pottþétt vín frá Argentínu með angan af kaffi, dökku súkkulaði og hindberjum, ásamt vott af plómum.  Góð fylling og eftirbragð.  Einkunn: 8,5 – Frábær Kaup! (Verð 2697 ISK / 119 SEK)
Vín ársins 2009 er hins vegar Peter Lehmann Shiraz Barossa 2006. Þetta er frábært vín með plómum, sólberjum og kirsuberjum, ásamt vott af súkkulaði og tóbaki.  Góð fylling, mikil tannín til staðar en í góðu jafnvægi við sýruna.  Langt og gott eftirbragð.  Einkunn: 9,0 – Frábær Kaup! (Verð 2698 ISK / 119 SEK)
Peter Lehmann Shiraz 2006

Vinir á Facebook