Kringlubúðin 20 ára!

Getið þið trúað því? Það eru 20 ár síðan vínbúð ÁTVR var opnuð í Kringlunni. Búðin þótti framúrstefnuleg og meðal nýjunga var að viðskiptavinirnir gátu sjálfir valið sér vín úr hillunum í stað þess að fá það afhent yfir búðarborðið! Þá voru einnig strikamerkjalesarar og afgreiðslukassar líkt og í matvörubúðum! Að hugsa sér, það eru bara 20 ára síðan.

Vissulega þykir þetta vera sjálfsagt í dag og allar vínbúðir ÁTVR með þessu sniði (þ.e. ef búðin í Ólafsvík er flutt úr barnafatabúðinni þar sem hún var þegar ég var að leysa af á heilsugæslunni þar fyrir ansi mörgum árum). Við vorum því nokkuð á undan nágrannalöndum okkar því þegar ég flutti til Svíþjóðar 2002 var enn afhent yfir búðarborðið í annarri vínbúðinni í Karlskrona. Hin búðin var öllu nýtískulegri og sú gamla var færð í nýjan búning áður en við fluttum þaðan.

Hins vegar sakna ég þess að ekki skuli vera hægt að kaupa bjór og léttvín í venjulegum matvöruverslunum, líkt og gengur og gerist í flestum siðmenntuðum löndum (nema Svíþjóð og Noregi). Vonandi verður verðum við komin í þann hóp áður en ég flyt aftur á klakann (hvernær sem það svo verður).

Lítið hefur farið fyrir vínsmökkun síðustu daga, því ég hef verið í útlegð í Falun þessa viku og ekkert smakkað nema eitt glas af Beringer Zinfandel (árgangur ókunnur) og lítið um það að segja. Helst fer það í taugarnar á mér að ekki sé hægt að fá neinn almennilegan amerískan cabernet í vínbúðunum hér (reyndar hægt að panta eitt og annað, en það er ekki alveg það sama). Á næstunni er hins vegar ætlunin að kanna betur úrvalið af Suður-Afrískum vínum og greint verður frá niðurstöðum þeirrar athugunar þegar þær liggja fyrir.

Vinir á Facebook