Benjamin Romeo Predicador 2018

Benjamin Romeo þykir einn mest spennandi víngerðarmaðurinn í Rioja. Það má segja að ferill hans sé ekki mjög ólíkur ferli David Swift Phinney í vínhúsi Orin Swift. Romeo starfaði sem víngerðarmaður hjá Aratadi á árunum 1985-2000. Á þessum tíma stofnaði hann hliðarverkefni þegar hann eignaðist gamla hella í Rioja. Í sitt fyrsta vín keypti hann þrúgur sem hann valdi sérstaklega og í kjölfarið fór hann að kaupa vínekrur fyrir nýstofnað fyrirtæki sitt – Bodega Contador. Árið 2000 snéri hann sér alfarið að Contador og ný víngerð Contador var svo tekin í notkun árið 2008. Vínið Contador fékk strax frábærar viðtökur gagnrýnenda og Robert Parker gaf bæði 2004 og 2005 árgöngunum 100 stig.

Vínið sem hér er fjallað um – Predicador eða Predikarinn – ku vera nefnt eftir persónu Clint Eastwood í kvikmyndinni Pale Rider. Vínið er að mestu leyti gert úr Tempranillo, en í því má einnig búast við að finna örlítið af Garnacha, Graciano og Mazuelo. Að lokinni gerjun er vínið sett í nýjar tunnur úr franskri eik þar sem það fær að hvíla í 16 mánuði.

Benjamin Romeo Predicador 2018 er dökk-rúbínrautt á lit, unglegt með góða dýpt. Í nefinu finnur maður kirsuber, vanillu, leður og kakó. Þétt tannín, góð sýra og flottur ávöxtur. Leður, vanilla, skógarber og vottur af tóbaki í góðu eftirbragðinu. 92 stig. Dæmigert nútíma-Rioja. Mjög gott núna en hefur eflaust gott af 3-4 árum til viðbótar í geymslu. Fór afar vel með grilluðu ribeye og á eflaust ekki í vandræðum með lambið eða villibráðina. Góð kaup (4.990 kr).

Notendur Vivino gefa þessu víni 4,1 stjörnu (709 umsagnir þegar þetta er skrifað). Þorri Hringsson er ákaflega hrifinn af þessu víni og gaf því 5 stjörnur. Robert Parker hefur ekki fjallað um þennan árgang en fyrri árgangar hafa flestir fengið 91-93 stig.

Benjamin Romeo Predicador 2018
Góð kaup
Benjamin Romeo Predicador 2018 er dæmigert nútíma-Rioja sem fer vel með grilluðu nauti, lambi eða léttari villibráð.
4.5
92 stig

Vinir á Facebook