Vín ársins 2020 að detta í hús

Á þessum tíma ársins eru flest víntímarit og skríbentar að birta lista sína yfir bestu vín ársins og velja vín ársins 2020. Yfirleitt er ekki mikið samræmi milli þessara lista, a.m.k. ekki efstu sætanna, og því líklega best að líta á þessa lista sem samantekt yfir bestu vínin, Ég man a.m.k. varla eftir að tveir skríbentar eða tímarit hafi valið sama vínið sem vín ársins eitthvert tiltekið ár – þið leiðréttið mig ef þetta er rangt.

Bestu vínin að mati Wine Enthusiast

Nýlega skrifaði ég aðeins um val Wine Enthusiast á 100 bestu kaupum ársins og 100 bestu kaupunum til geymslu. Wine Enthusiast birtir auðvitað einnig lista yfir bestu vín ársins og líklega eru einhver vín af hinum listunum á þessum „best of“-lista. Vín ársins hjá Wine Enthusiast er Lail Cabernet Sauvignon Blueprint 2017 og er ættað úr Napa Valley. Þetta vín er auðvitað ekki fáanlegt hérlendis, en það má áætla að það myndi kosta nálægt 10 þúsundum ef svo væri. En á listanum er þó vín sem íslenskir vínunnendur gætu kannast við. Í 3. sætinu er t.d. Ciacci Piccolomini d’Aragona Brunello di Montalcino 2015 sem fyrir ekki svo löngu var hægt að nálgast í vínbúðunum. Litli bróðirinn Rossi di Montalcino sýnist mér vera nýlega horfinn af vef vínbúðanna og því líklega einnig úr búðunum sjálfum.

Í 9. sæti á þessum lista er El Coto de Imaz Gran Reserva 2012 sem fæst í vínbúðunum (sami árgangur) og kostar ekki nema 3.798 krónur. Vínið fær 94 stig hjá Wine Enthusiast og þetta ættu því að vera reyfarakaup! Á listanum má einnig finna vín frá J. Lohr og Quinta do Crasto, þó þessi tilteknu vín séu ekki í vínbúðunum, en það má alveg mæla með vínum frá þessum framleiðendum.

Í 62. sæti er kampavín sem hægt er að nálgast í vínbúðnum – Louis Roederer Brut Rose 2014, sem kostar 9.800 krónur og fær 95 stig hjá Wine Enthusiast. Í 67. sæti er González Byass Nectar Dulce Pedro Ximénez sem kostar ekki nema 2.598 krónur (375 ml) og sennilega eitt besta sérríið sem hægt er að fá í vínbúðunum. Í 83. sæti er CUNE Monopole Viura 2017, en 2016-árgangurinn er fáanlegur í vínbúðunum fyrir 1.999 krónur og hann er hreint ekki svo slæmur. 2017-árgangurinn fær 92 stig og því vel þess virði að fylgjast með þegar sá árgangur kemur í vínbúðirnar.

Bestu vínin að mati James Suckling

James Suckling valdi vín frá Argentínu sem vín ársins 2020 – Chacra Pinot Noir Patagonia Treinta y Dos 2018 – sem fékk 100 stig hjá honum. Á topp 100-listanum hans er einnig að finna fyrrnefndan Ciacci Piccolomini Brunello di Montalcino 2015, en Suckling gefur honum líka 100 stig, alveg eins og Don Melchor 2018 sem hann setur í 12. sæti. Í 82. sæti er Montes Purple Angel Carmenere 2017 sem fær 98 stig. Það er fáanlegt í vínbúðunum en hefur hækkað nokkuð milli ára og er nú komið í tæplega 10.000 krónur.

Í 89. sæti er svo 2017-árgangurinn af Chateau Vieux Certan Pomerol sem fær 98 stig. Í vínbúðunum er hægt að nálgast 2015-árganginn af þessu sama víni fyrir litlar 45.678 krónur (sá árgangur fær 97 stig hjá Wine Spectator og 98+ hjá Robert Parker – 2017 fær sömu einkunnir hjá þeim). Að lokum er í 97. sæti Chateau Leoville Las Cases St. Julien 2017 sem fær 98 stig. Í vínbúðunum fæst 2015-árgangurinn sem kostar ekki nema 37.777 krónur, en sá árgangur fær 95 stig hjá Wine Spectator og 98+ hjá Robert Parker.

Í næstu viku hefst svo hin árlega niðurtalning Wine Spectator að víni ársins 2020 og ég mun auðvitað fylgjast með því.

Vinir á Facebook