Skemmtilegt hvítvín frá Rósaströnd

Vínin frá Gerard Bertrand hafa fengið góðar viðtökur á Íslandi og það kæmi mér ekki á óvart þó vínin frá Rósaströndinni vektu lukku hjá landanum.  Gerard Bertrand ræktar sinn vínvið í Languedoc og hefur byggt upp öflugt vínhús á skömmum tíma.  Rósaströndin, eða Cote des Roses, er ekki sérstaklega skilgreint víngerðarsvæði, heldur er þetta heiti á ákveðinni línu frá Gerard, en í þessari línu eru rósavín (Grenache, Cinsault og Syrah), rauðvín (GSM-blandan, eða Syrah, Grenache og Mourvedre) og svo vín dagsins sem er hvítt og gert úr Grenache, Viognier og Vermentino.  Ég minnist þess ekki að hafa drukkið hvítvín úr Grenache, né séð Vermentino í frönsku hvítvíni (Vermentino er reyndar algeng þrúga við Miðjarðarhafið, einkum á Ítalíu).
Gerard Bertrand Cote des Roses Grenache-Viognier-Vermentino 2015 er fallega gullið í glasi, unglegt að sjá.  Í nefinu er frískur og blómlegur ilmur af sítrus og suðrænum ávöxtum, perubrjóstsykur og ananas.  Í munni er fín sýra og vínið er frísklegt, með sítrus- og perukeim sem heldur sér ágætlega fram í þægilegt eftirbragðið.  Nýtur sín vel sem fordrykkur en einnig gott með fiski og salati.  Góð kaup (2.499 kr).  87 stig.  Til gamans má geta að botn flöskuna er skorinn með rósamynstri og flöskutappinn er úr gleri.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook