Ágætur Alsace

Héraðið Alsace í Frakklandi á sér langa og merka sögu og er um margt frábrugðið öðrum héruðum Frakklands.  Alsace hefur stundum tilheyrt Þýskalandi, oftast Frakklandi, lengi vel var það hluti af Páfaveldinu en einnig reynt að standa á eigin fótum.  Héraðið er þekkt fyrir sín frábæru hvítvín, en þaðan koma líka mjög góðir bjórar og Alsace er eitt mikilvægasta héraðið í franskri bjórgerð.  Í hvítvínum Alsace, eða réttara sagt regluverkinu kringum þau, kemur vel fram hversu mikil áhrif þýsk menning hefur í héraðinu, því Alasace AOC er eina vínræktarhéraðið í Frakklandi sem skilgreinir sín vín út frá þrúgunum sem í þau fara.  Reglur Alsace AOC kveða á um 3 mismunandi skilgreiningar – venjulegt AOC Alsace (hvítvín, rauðvín og rósavín), AOC Alsace Grand Cru (vín af tilteknum vínekrum) og AOC Crémant d’Alsace (freyðvín).  Í hvítvínin fara einkum þrúgurnar Riesling (frá Alsace koma frábær þurr Riesling-vín), Pinot Gris og svo þrúgan í víni dagsins – Gewürztraminer.
Pfaff Gewurztraminer AlsacePfaff Gewürztraminer Alsace 2013 er sítrónugullið á lit, með angan af hunangi, suðrænum ávöxtum, ananas og kryddi.  Í munni finnur maður þægilegan hunangskeim, smjör og milda eikartóna, örlítil sæta en þægileg sýra á móti.  Hentar vel sem fordrykkur en einnig með skelfiski, t.d. humri.  Ágæt kaup (2.490 kr).

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook