Dark Horse

Nýlega komu í hillur vínbúðanna vín frá framleiðanda sem nefnist Dark Horse. Víngerð þessi er staðsett í Kaliforníu og mun vera í eigu vínrisans Gallo. Alls koma 6 vín frá Dark Horse – 4 rauð og 2 hvít – og eru 3 þeirra fáanleg hér á landi. Ég prófaði þessi vín nýlega og verð að segja að þau vöktu misjafna lukku hjá mér.
dark horse merlot Dark Horse Cabernet Sauvignon 2013 er eiginlega dæmigert grillvín – ávaxtaríkt með kirsuberjum, vanillu og tóbaki, súkkulaði, kaffi og kryddum, með nokkuð mikilli sýru í munni, ekki alveg nógu gott jafnvægi og er aðeins of aggressíft fyrir minn smekk.  Hentar vel með sumargrillinu – hamborgarar eða lambakótilettur, en ef ætlunin er að fá sér betri steik er betra að velja annað og betra vín (ef þú vilt amerískan cabernet þá get ég alveg mælt með Louis M. Martini, meira um það fljótlega).  Einkunn 6,0 (2.199 kr).
Dark Horse Merlot 2013 svipar nokkuð til cabernet-vínsins en er aðeins aðgengilegri.  Þetta er sömuleiðis gott grillvín en með aðeins meiri sultu og því ekki eins aggressíft.  Kirsuberin og súkkulaðið koma vel fram í lykt og bragði, jafnvægið mætti vera betra en þetta vín er betur gert en cabernet-vínið, að mínu mati.  Einkunn: 6,5 (2.199 kr).
dark horse chardonnayDark Horse Chardonnay 2013 er besta vínið af þessum þremur og stendur þessum rauðu nokkuð framar.  Ég hef lengi verið veikur fyrir eikuðum, amerískum chardonnay en auðvitað verður maður samt að gera einhverjar gæðakröfur til þeirra, og Dark Horse uppfyllir flestar kröfur mínar (þó ekki allar).  Ilmur af amerískri eik, bökuðum eplum og perum, smá vanillu og kryddum gefa góð fyrirheit, og ég var líka ánægður með bragðið – eikin reyndar nokkuð áberandi en perurnar og eplin eru greinileg, ágætt jafnvægi og eftirbragð, en þetta vín þarf hins vegar að drekka kalt ef eikin á ekki að verða of áberandi.  Hentar vel með feitum fiski.  Einkunn: 7,0 (2.199 kr).

Vinir á Facebook