Altos de Rioja Tempranillo 2011

Altos tempranilloVíngerðin Altos de Rioja á Spáni er ung að árum en strax farin að vekja athygli fyrir nútímaleg og góð vín.  Eins og nafnið gefur til kynna er víngerðin staðsett í hinu rómaða Rioja-héraði á Spáni, en víngerðarmennirnir koma frá Toro- og La Mancha-héraði, en víngerð í þessum héruðum hefur verið á mikilli uppleið undanfarin ár og spennandi hlutir að gerast á þeim slóðum.  Vínin frá Altos bera líka með sér að það er ekki alveg fylgt gömlu kokkabókinni frá Rioja, heldur er stefnan aðeins nútímalegri og lögð áhersla á gerð vína sem eru bæði aðgengileg þegar þau eru ung, en einnig með burði til að batna við geymslu.
Altos R Tempranillo 2011 er unglegt, nokkuð dökkt að sjá með góða dýpt.  Lyktin þétt og góð, með angan af berjum (jarðarber, kirsuber, og svei mér ef það vottar ekki aðeins fyrir bláberjum) og amerískri eik.  Einnig þægilegur ávaxtailmur sem skilar sér í bragðinu, en vínið í ágætu jafnvægi, með bæði tannín og sýru, smávegis kryddkeimur, berjabragð og smá tóbak, einkum í eftirbragðinu.  Vínið hentar vel með ostum, ljósu fuglakjöti og jafnvel pasta, en er ekki alveg tilbúin í rauða kjötið (kannski lamb?).  Einkunn: 7,5 – mjög góð kaup (1.999 kr).

Vinir á Facebook