Albert Bichot Heritage 1831

Mér áskotnuðust nýlega eintök af Albert Bichot Heritage 1831 Chardonnay og Pinot Noir.  Þetta eru dæmigerð búrgúndarvín sem væntanlega teljast til litlu vínanna frá Albert Bichot, með skilgreininguna AOC Régionale, sem er eitt lægsta flokkunarþrepið.  Líkt og margir stærri framleiðendur í Bourgogne þá framleiðir Albert mörg vín og er með framleiðslu í öllum helstu svæðum Bourgogne, auk þess að framleiða Cremant, sem er franska heitið á freyðivínum (öðrum en kampavínum, sem koma auðvitað frá Champagne).  Albert á býli (estate) í Chablis, Côte de Nuits, Côte de Beaune, og Côte Chalonnaise, og frá hverju býli koma fjölmörg mismunandi vín, bæði rauð og hvít.  Þessi vín sem hér um ræðir, Heritage 1831, koma þó yfirleitt ekki frá þessum býlum, heldur eru þau gerð úr þrúgum sem keyptar eru frá öðrum vínbændum víðs vegar í Bourgogne.  Hvítvínin eru ekki látin liggja lengi í eikartunnum og fá því ekki mikinn eikarkeim, en eru í staðinn ávaxtarík og frískleg, tilbúin til neyslu.  Rauðvínin fá eitt ár í eikartunnum og eikarbragðið því meira áberandi í þeim en í hvítvíninu.

Hvítvínið, Albert Bichot Heritage 1831 Chardonnay 2012, er ljósgult á lit, með angan af ferskjum, sítrus og örlítinn hnetukeim.  Í munninum kemur ávaxtabragðið betur fram, ágæt sýra, sæmileg fylling og vottur af eik.  Einkunn: 7,0. Hentar ágætlega með ljósu fuglakjöti og fiski. Kostar 2.863 kr í Vínbúðunum.

Rauðvínið, Albert Bichot Héritage 1831 Pinot Noir 2012, er ljósrautt, með angan af rifsberjum og hindberjum.  Í munni skortir nokkuð upp á fyllinguna, eikin dálítið áberandi og jafnvægið mætti vera betra.  Einkunn: 6,5. Hentar ágætlega með ostum og lambi.  Kostar 2.863 í Vínbúðunum.
 

Vinir á Facebook