Þessi fyrirsögn kemur af og til á Vínsíðuna (og aðrar vínsíður) þegar maður rekst á eitthvað gómsætt vín. Um daginn smakkaði ég Altano Douro 2011 frá Portúgal og var virkilega ánægður með vínið. Fallega rautt, unglegt að sjá og ekki mikill þroski sjáanlegur. Í nefinu er mikið af kirsuberjum og súkkulaði, vottur af pipar og kaffi sem kemur betur fram í bragðinu, sem er þétt og gott, fínt jafnvægi og langt eftirbragð. Ég gaf þessu víni 8,5 í einkunn og mæli hiklaust með því. Í dag sá ég svo að Wine Spectator gerir slíkt hið sama, gefur því einkuninna 91 stig og það er efst á listanum fyrir Best Values í víndómasafni júní-eintaksins. Vínið kostar ekki nema 1.998 krónur og hér á maður hiklaust að kaupa heilan kassa! Ein bestu kaupin í Vínbúðunum í dag!