ERA – lífrænt framleidd vín frá Ítalíu

Framboð á lífrænt ræktuðum og framleiddum vínum hefur aukist mjög undanfarinn áratug.  Fyrstu lífrænu vínin voru þó ekki mjög merkileg en líklega er þar frekar um að kenna víngerðinni sjálfri frekar en því að vínin séu framleidd á lífrænan hátt.  Reynslunni ríkari og í krafti aukinnar eftirspurnar hefur áherslan á framleiðslu lífrænna vína aukist og víngerðin batnað, og nú er svo komið að mörg vel frambærileg lífrænt framleidd vín standa okkur til boða í hillum vínbúðanna.  Ég hef áður fjallað um vínin frá Beronia og lýst hrifningu minni á þeim.  Nú í vikunni smakkaði ég tvö vín frá hinum ítölsku ERA, sem sérhæfir sig í framleiðslu lífrænna vína.
ERA var stofnað 1999 gagngert til þess að framleiða vín á lífrænan hátt.  Fyrirtækið á vínakra víðs vegar á Ítalíu, frá Veneto í norðri til Sikileyjar í suðri, og framleiðir 3 hvítvín, 5 rauðvín og eitt rósavín. era-sangiovese-marche
ERA Sangiovese Marche 2012 er hið prýðilegasta vín – fjólurautt í glasi en ekki mikil dýpt.  Í nefið kemur angan af bláberjum, lakkrís og smá vanillu. Vínið er í ágætis jafnvægi, hefur reyndar ekki mikla fyllingu en samsvarar sér engu að síður vel.  Fer vel með léttum kjötréttum og pasta, jafnvel ostum. Einkunn: 7,0 (verð 1.998 kr).
MPIR015ERA Montepulciano d’Abruzzo 2012 var heldur risminna – kirsuberjarautt, lítil dýpt.  Berja- og blómakeimur með smá kryddi.  Ágætt jafnvægi en frekar lítil fylling og stutt eftirbragð.  Gæti hugsanlega gengið með ljósu fuglakjöti og skinku. Einkunn: 6,0 (verð 1.998 kr).

Vinir á Facebook