Roastbeef og Port Phillip

Þrátt fyrir að það væri bóndadagur í dag þá kom það samt í minn hlut að sjá um matinn í kvöld – ekki það að ég hafi neitt á móti því, enda kann ég vel við mig í eldhúsinu!  Ég eldaði roastbeef með sveppasósu, salati og kartöflum og var bara nokkuð ánægðum með útkomuna (kjötið var kannski aðeins of lengi í ofninum, því eldri dótturinni (sem verður 8 ára eftir viku) fannst kjötið ekki nógu rautt).  Með þessu drukkum við Port Phillip Estate Shiraz 2006, en það kom í kassa sem ég pantaði rétt fyrir jól frá Antipodes wines.  Þetta vín kemur frá Victoria í Ástralíu, nánar tiltekið frá Mornington-skaga nálægt Melbourne.  Vínið fékk að liggja 16 mánuði í tunnum úr franskri eik og það leynir sér ekki, hvorki í lykt né bragði!  Vínið er nokkuð dökkt eins og shiraz á að vera, unglegt með sæmilega dýpt.  Í nefinu er franska eikin mjög áberandi ásamt rósmarín og vott af vanillu og lakkrís.  Í munni finnur maður áfram fyrir eikinni en einnig smá pipar og rósmarín.  Þokkaleg fylling.  Eftirbragðið kryddað og heldur sér þokkalega.  Einkunn: 7,0.
Port Phillip Estate Shiraz 2006
Það bíður mín kassi af Brancaia Tre 2007 í vínbúðinni minni og ég hef hugsað mér að sækja hann á morgun.  Þá verða vínkælarnir mínir komnir í einstaklega gott ástand og hætt við að ég þurfi að fara að leita mér að stærri vínkæli…

Vinir á Facebook