Sushi, afmæli og heimsóknir

Síðastliðin vika var frekar róleg hjá okkur. Guðfinna Ósk átti afmæli í gær og vikan fór að nokkru leyti í það að undirbúa veisluna. Von var á 15 gestum og eftirvæntingin mikil. Því miður þurfti þó að aflýsa heimsókninni á síðustu stundu þar sem ælupest skaut upp kollinum. Það breytti þó ekki því að við áttum ágæta helgi að öðru leyti. Guðjón vinur okkar kom í heimsókn – fyrsta skipti sem hann kemur til Uppsala. Það var því tvöfalt tilefni til að gera sér dagamun.
Guðfinna Ósk hafði óskað eftir nautalund (blóðugri!) í mat á afmælisdaginn sinn, en við ákváðum reyndar að hafa lundina daginn áður, enda líklegt að allir yrðu nokkuð saddir eftir kökuát og því lítið pláss fyrir nautasteik.  Með nautinu bauð ég upp á fondantes kartöflur, villisveppasósu og salat.  Með því drukkum við Tignanello 2005 – stórfenglegt vín að öllu leyti!  Fallega dökkt með mikla dýpt, ilmur af eik, leðri og sólberjum.  Nokkuð tannískt með góða fyllingu og langt og gott eftirbragð.  Einkunn: 9,0 – Góð Kaup! Eftir matinn fengum við okkur súkkulaði og Tommasi Amarone 2005.  Mjög gott amaronevín, dökkt og fallegt í glasi, hnausþykkur ilmur af rúsínum og fjólum.  Góð fylling og eftirbragð sem endist lengi. Einkunn: 8,5 – Góð Kaup!
Eins og áður sagði þurftum við að fresta afmælisveislunni þegar yngri dóttirin fékk ælupest, sem blessunarlega gekk fljótt yfir án þess að nokkur annar hafi veikst (enn sem komið er…).  Við ákváðum því að fá okkur sushi (McDonalds fyrir dæturinar) og með því drukkum við Saint Clair Marlborough Riesling 2008.  Það er ljósgult vín, ilmur af melónum og apríkósum, dálítið þurrt (svona mitt á milli þess að vera þurrt og hálfsætt) og passaði vel með sushinu.  Einkunn: 7,0. Við opnuðum svo að lokum eina Brancaia Tre 2007 – frábært vín sem ég hef áður farið lofsamlegum orðum um hér á Vínsíðunni.

Vinir á Facebook