Mjög gott Trebbiano

Stundum er vinnan að þvælast fyrir manni og því lítið verið um vínprófanir að undanförnu.  Það styttist þó í sumarfrí og þá get ég vonandi hafist handa við að smakka fleiri vín og koma frá mér víndómum sem bíða birtingar. Fyrir skömmu náði ég þó að prófa enn eitt Montepulciano-vínið frá Cantine Torri, og að þessu sinni er það hvítvín úr þrúgunni Trebbiano d’Abruzzo.

Cantine Torri Bakan Trebbiano d’Abruzzo 2016 er strágullið á lit, með smjörkennda angan af sítrusávöxtum, eplum, perum og ögn af aspas.  Í munni er góð sýra og ágæt fylling, þar sem perur, epli, greipaldin og melónur ráða ferðinni í ágætu eftirbragðinu. Hentar vel með sjávarréttum, ljósu pasta, risotto og salati.  Vínið er ekki ætlað til langrar geymslu og nýtur sín best á næstu 2-3 árum. Mjög góð kaup (2.290 kr). 89 stig.

Vinir á Facebook