Kemur áfengi í veg fyrir þyngdaraukningu?

Hingað til hefur almennt verið álitið að áfengi stuðli að aukinni líkamsþyngd (þ.e. að maður fitni af því að drekka áfengi).  Nú hafa bandarískir vísindamenn hins vegar sýnt fram á að svo er ekki, a.m.k. ekki hjá konum!
Vísindamenn við Harvard-háskóla fylgdust með tæplega 20.000 konum í 13 ár (þetta gæti hljómað grunsamlega en þetta var sem sagt almennt heilsufarskönnun hjá heilbrigðisstarfsfólki) og athugðu þyngdarbreytingu hjá frískum konum eldri en fertugt og með eðlilega líkamsþyngd.  Flestar konurnar þyngdust á þessu 13 ára tímabili en hófdrykkjukonurnar þyngdust minna en bindindiskonurnar, eða um tæplega 2 kg á móti 4 kg hjá bindindiskonunum.
Þá voru hófdrykkjukonurnar síður líklegri til að fitna um of á þessu tímabil miðað við bindindiskonurnar, en alls þyngdust um 40% kvennanna úr hófi fram á tímabilinu (líkamsþyngdarstuðull (BMI)  fór yfir 25 eða 30).
Áhrif áfengisins mátti hjá í öllum áfengistegundum (léttvínum, bjór og sterkum vínum).  Sterkust voru tengslin við rauðvín en veikust við hvítvín.
Höfundarnir telja þetta mjög áhugaverðar niðurstöður en vilja auðvitað ekki túlka þær sem svo að mæla beri með áfengisneyslu til að forðast þyngdaraukningu – það þorir jú enginn vísindamaður að halda því fram að áfengi sé beinlínis hollt sé þess neytt í hófi.  Vínsíðan mælist áfram til þess að áfengi sé neytt í hófi og áherslan fremur lögð á gæði frekar en magn!
Greinin birtist í nýjasta hefti Archives of Internal Medicine og hana má lesa hér.

Vinir á Facebook