Síðastliðna helgi langaði okkur í góðan mat og við vorum að spá í að elda gæsabringur sem við áttum í frystinum. Því miður vorum við of sein að taka þær út úr frystinum og urðum því að finna eitthvað annað til að elda. Niðurstaðan var sú að ég fór og keypti svínarif sem ég eldaði að hætti hússins – ofnsteikt í rúma 3 tíma. Þegar kjötið var tekið út var hrundi það nánast af beinunum og þannig eiga rifjasteikur að vera! Kryddað með grillkryddi, penslað með heimatilbúinni grillsósu. Með þessu drukkum við Claremont Coonawarra Cabernet Sauvignon Reserve 2006. Þetta er dökkt og fallegt vín, enn nokkuð ungt að sjá. Í nefinu áberandi berjakeimur, einkum kirsuber en einnig plómur og súkkulaði, ásamt vott af myntu. Sama bragð þegar í munninn er komið, einkum berjakeimurinn. Ekki mikið af tannínum en þokkaleg fylling. Sæmilegt eftirbragð. Einkunn: 7,0.