Við vorum á ferðalagi í síðustu viku, fórum niður til Karlskrona í suður-Svíþjóð að hitta gamla kunningja, en þetta gekk ekki áfallalaust fyrir sig.
Þegar við ætluðum að leggja af stað suður á bóginn vildi bíllinn ekki fara í gang. Allt komið inn í bílinn, börnin fastspennt í sætin og eftirvæntingin mikil – og bíllinn fer ekki í gang! Nú voru góð ráð dýr – allir í sumarfríi, þar að auki veikindi á verkstæðinu hjá Ford-umboðinu hér í Uppsölum og ekki séns að fá tíma á næstunni. Áður en ferðinni var aflýst ákvað ég að hringja í Dóra. Hann kann allt sem þörf er á að kunna um bíla og vel það. Eftir að hafa hlustað á tilraunir mínar til gangsetningar í gegnum símann var vandamálið greint og 15 mínútum síðar var bíllinn kominn í gang og við lögð af stað í ferðalagið. Nokkrum klukkustundum síðar vorum við komin á fyrsta áfangastað – Astrid Lindgrens värld í Vimmerby, fæðingarbæ rithöfundarins ástsæla. Dæturnar voru alsælar að komast í skemmtigarðinn og að fá að sofa í tjaldi! Tveimur dögum síðar héldum við áfram til Karlskrona þar sem við gistum fyrst hjá Huldu og Steina. Steini á nokkuð gott vínsafn sem er sterkt í þýskum vínum (enda lærði hann í Þýskalandi). Fyrsta kvöldið bauð hann upp á grillaðan skötusel og risotto sem var alveg einstaklega gott. Með þessu drukkum við þýskt hvítvín, Keller Silvaner 2007 (að mig minnir). Ákaflega gott hvítvín með sítruskeimi og vott af grasi, hnetu og hunangi, frísklegt í munni með gott eftirbragð.
Annað kvöldið fengum við mjög gott kjúklingasalat og með því drukkum við Henri Bourgeois Sancerre Les Baronnes 2008, fallegt hvítvín með ljúfum sítrus-, krydd- og aspasilm. Í munni er vínið frísklegt með keim af sítrus og grænum berjum. Dæmigert sauvignon blanc og mjög gott vín. Góð kaup.
Eftir þetta héldum við til Bimmu og Dóra og gistum þar í tvær nætur. Fyrra kvöldið fengum við okkur Alpha Zeta Amarone A 2006. Dæmigert amaronevín, dökkt og fallegt með áberandi rúsínuilm, kaffi, vanillu og eik. Í munni kröftugt og í góðu jafnvægi, tannískt með rúsínu- og eikarbragð, langt og gott eftirbragð. Góð kaup.
Síðasta kvöldið var efnt til grillveislu fyrir Íslendingana í Karlskrona sem endaði svo í góðu partýi þar sem við dönsuðum fram á nótt. Lítið fór fyrir víndrykkju það kvöld en þeim mun meira var innbyrt af bjór, einkum hinum pólska Zywiec, sem er ljós bjór, 5,7% að styrkleika, með vægt maltbragð, smávegis af hnetum og örlítið sætur. Nokkuð góður bjór, einkum í partýi og hitabylgju!