Fantagóður Pinotage

Það hefur verið frekar rólegt yfir Vínsíðunni síðustu vikur enda mikið að gera hjá ritstjóranum.  Þursabit, pallasmíðar, skjólveggur, bakvakt og síðast en ekki síst – undirbúningur Íslandsferðarinnar.  Vínsmökkun hefur því mátt víkja fyrir öðru en nú er kannski hægt að bæta úr því og fjalla meira um það sem landanum stendur til boða.
Hvað um það – ritstjórinn er mættur á klakann.  Í fríhöfninni sá ég ýmislegt spennandi sem ég gæti vel hugsað mér að taka með á leiðinni heim.  Ég tók þó með mér nokkrar flöskur – einn spennandi sancerre, Rosemount Balmoral Shiraz og svo Kanonkop Estate Pinotage 2004.
Síðastnefna vínið drakk ég í gær með grilluðu lambakjöti og það er óhætt að segja að það hafi verið vel heppnað.  Heillandi ilmur af tóbaki, kirsuberjum, súkkulaði og banönum (já, meira að segja bananar koma fyrir í pinotage!).  Mikil og góð fylling, gott jafnvægi og langt eftirbragð eru svo rúsínan í pylsuendanum á þessu ágæta víni.  Þó að flestir vínbændur í Suður-Afríku hafi snúið baki við pinotage um tíma þá hefur Kanonkop alltaf haldið tryggð við þrúguna og það skilar sér m.a. í því að þeir eru einn besti framleiðandi pinotagevína í Suður-Afríku (og þar af leiðandi í heiminum!).  Góð kaup!

Vinir á Facebook