Gérard Bertrand Côtes du Roussillon Villages Tautavel An 560 2018

Ég held að flestir íslenskir vínáhugamenn kannist við vínin frá Gerard Bertrand. Ég held líka að ef þeir yrðu beðnir að nefna eitt vín frá Gerard Bertrand myndu flestir eflaust nefna Tautavel. Það vín hefur nefnilega farið ákaflega vel ofan í landann og nánast verið áskrifandi að Gyllta glasinu. Ég hef líka yfirleitt haft það á listanum mínum yfir bestu kaupin í Fríhöfninni. Það minnir mig reyndar á að það fer að verða tímabært að uppfæra þann lista þegar ferðaþyrstir Íslendingar komast aftur í Fríhöfnina.

Vínið sem hér er fjallað um hefur lengst af verið kallað Grand Terroir en þeim hluta nafnsins hefur nú verið breytt í An 560.

Vín dagins

Vín dagsins kemur frá vínekrum sem liggja í nágrenni þorpsins Tautavel í Roussillon-héraði, sem er staðsett á milli Pyrenea-fjalla og Miðjarðarhafs. Vínið er gert úr þrúgunum Syrah, Grenache og Carignan. Hluti þess er látinn þroskast í frönskum eikartunnum í 9 mánuði, en afgangurinn er látinn liggja í tönkunum á meðan.

Gérard Bertrand Côtes du Roussillon Villages Tautavel An 560 2018 er kirsuberjarautt á lit og unglegt að sjá. Í nefinu er þægileg angan af plómum, fjólum, kirsuberjum, timjan og franskri eik. Í munni eru ríflega miðlungstannín, góð sýra og flottur ávöxtur. Bláber, sólber, plómur, eik og ögn af dökku súkkulaði í þéttu og góðu eftirbragðinu sem heldur sér vel. 89 stig. Góð kaup (2.999 kr). Fer vel með rauðu kjöti hvers konar, einkum ef það hefur haft viðkomu á grillinu.

Notendur Vivino gefa þessu víni að meðaltali 3,9 stjörnur (277 umsagnir þegar þetta er skrifað – það er þó flokkað undir Grand Terroir). Robert Parker gefur þessu víni 90 stig.

Gérard Bertrand Côtes du Roussillon Villages Tautavel An 560 2018
Gérard Bertrand Côtes du Roussillon Villages Tautavel An 560 2018 fer vel með rauðu kjöti hvers konar, einkum ef það hefur haft viðkomu á grillinu.
4
89 stig

Vinir á Facebook