Allegrini Belpasso Rosso 2017

Allegrini-fjölskyldan er ein þekktasta vínfjölskylda Ítalíu og þekkt fyrir sín gæðavín. Ég kynntist Allegrini-vínunum fyrst þegar ég bjó í Svíþjóð og þar var ávallt hægt að ganga að gæðunum vísum. Allegrini er staðsett í Vapolicella-héraði á norður-Ítalíu og framleiðir að mestu klassísk Valpolicella-vín.

Vín dagsins sker sig að nokkru leyti frá öðrum vínum Allegrini að því leyti að það er ekki klassískt Valpolicella-vín. Reglur Valpolicella kveða á um hvaða þrúgur megi nota í rauðvín og hvítvín – Corvina, Corvinone, Rondinella og Molinara, auk þess sem nota má örlítið af Rossignola, Negrara, Barbera, Sangiovese og Bigolona. Í víni dagsins er hins vegar, auk Molinara, Rondinella og Corvina, einnig að finna Cabernet Sauvignon og Merlot. Það má því ekki kenna vínið við Valpolicella og í staðinn flokkast það sem einfalt ítalskt rauðvín. Þá finnst mér það líka merkilegt að þetta vín er ekki að finna á heimasíðu Allegrini.

Allegrini Belpasso Rosso 2017 er kirsuberjarautt á lit og komið með örlítinn þroska. Í nefinu finnur maður brómber, plómur, rúsínur, leður, vanillu og smá möndlur. Miðlungstannín, ágæt sýra en skortir fyllingu. Leður, kirsuber og smá eik í eftirbragðinu. Ágætt hversdagsvín (2.790 kr). 86 stig.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3,7 (147 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Allegrini Belpasso Rosso 2017
Allegrini Belpasso Rosso 2017 er ágætt hversdagsvín sem fer vel með pastaréttum og jafnvel fuglakjöti.
3.5
86 stig

Vinir á Facebook