Malbec-dagurinn 2021

Alþjóðlegi Malbec-dagurinn er í dag. Samtök vínframleiðenda í Argentínu komu þessari hátíð á koppinn árið 2011 til að vekja athygli á Malbec-þrúgunni. Dagurinn er haldinn hátíðlegur þann 17. apríl ár hvert en þennan dag árið 1853 tilkynnti forseti Argentínu, Domingo Faustino Sarmiento, um áform sín að efla Argentínska víngerð.

Malbec er ein af sex þrúgutegundum sem heimilt er að nota í rauðvín í Bordeaux (hinar þrúgurnar eru Cabernet-systurnar Sauvignon og Franc, Merlot, Petit Verdot og Carmenere). Í Frakklandi hefur Malbec hins vegar notið sín best í Cahors í suðvesturhluta Frakklands. Þó svo að þrúgan sé ræktuð víða um heim hefur hún undanfarinn áratug eða svo verið kennd meira og meira við Argentínu.

Tæplega helmingur alls rauðvíns sem drukkinn er í Argentínu er gert úr Malbec og þrúgan því réttilega kölluð flaggskip argentískrar víngerðar. Þrúgan kemur þó ekki bara fyrir í rauðvínum, því hún hefur líka verið notuð í rósavín (þrúgan er þá tínd fyrr og gerjunartíminn styttur) og í freyðivín gerð með kampavínsaðferðinni.

Í fyrra missti ég af þessum degi en í dag mundi ég eftir honum! Vonandi get ég þó notið dagsins því ég fékk seinni sprautuna gegn COVID í morgun og það er víst nokkuð um að menn verði slappir á eftir. Ég er a.m.k. búinn að krydda svínarifin sem eiga að fara á grillið í kvöld.

Þeir sem vilja fá sér Malbec í tilefni dagsins geta valið úr 20 rauðvínum í Vínbúðunum (eitt þarf reyndar að sérpanta)

Vinir á Facebook