Vínin með páskalambinu

Það er siður víða um heim að borða lambakjöt um páskana og við Íslendingar erum væntanlega engir eftirbátar annarra í þessari hefð, frekar en öðrum hefðum.  Mörgum (þar á meðal mér) finnst tilheyrandi að drekka gott vín með góðum mat þegar maður gerir sér dagamun, og því er við hæfi að velta fyrir sér hvaða vín henti best með páskalambinu.  En það sem líklega skiptir höfuðmáli við val á víni með lambakjöti er steikin sjálf og hvernig hún er elduð.
Ef þú er með lambahrygg (einkum ef hann fær að vera aðeins bleikur) eða lambafillet þá er líklega betra að velja fínlegt vín og þá kemur Pinot Noir-þrúgan fyrst upp í hugann, t.d. frá Búrgúndí, Chile eða Nýja Sjálandi.  Hér gætu hentað vín eins og Brancott Letter Series T Pinot Noir (2.999 kr) og Cono Sur Pinot Noir Organic (2.180 kr) .
Ef þú ert með lambalæri eldað á klassískan íslenskan hátt þá þarf að velja aðeins tannískara vín.  Lærið er aðeins grófara en hryggurinn og tannínin fá kjötið til að virðast mýkra í munni.  Lærið er líka yfirleitt bragðmeira en hryggurinn og kallar á kröftugra vín. Vín í Bordeaux-stíl (einkum vínin frá vinstri bakkanum, því þau eru að mestu gerð úr Cabernet Sauvignon) passa yfirleitt vel með lambalærinu.  Chateau Timberlay (3.489 kr) og Chateau Lamothe Vincent (2.499 kr) gætu hentað vel.  Einnig má leita að Cabernet Sauvignon frá öðrum löndum, t.d. Alamos Cabernet Sauvignon (2.199 kr), Lapostolle Cabernet Sauvignon Cuvee Alexandre (2.998 kr), Louis M. Martini Cabernet Sauvignon  (2.999 kr), Concha y Toro Marques de Casa Concha  Cabernet Sauvignon (2.999 kr), Montes Alpha Cabernet Sauvignon (2.999 kr) og Peter Lehmann Cabernet Sauvignon (2.599 kr).  Svo er næstum alltaf skothelt að velja gott Reserva frá Rioja, s.s. Baron de Ley Reserva (2.699 kr), Beronia (2.798 kr) og Ramon Bilbao Edicion Limitada (2.399 kr).
Munið þó að lokum, að eins og alltaf þegar vín eru annars vegar, þá eru það gæðin sem skipta máli en ekki magnið – gangið hægt um gleðinnar dyr.
Gleðilega páska!

Vinir á Facebook