Pottþétt tvenna – lax og Chardonnay

Facebook er ekki alls varnað.  Með vakandi auga sínu hefur Facebook áttað sig á áhugamálum mínum – vínum og matargerð (ásamt öðru) – og þessi ötula gagnasöfnun varð til þess að bókin ákvað að benda mér á vefsíðuna cafedelites.com, nánar tiltekið á þessa girnilegu uppskrift af ofnsteiktum laxi með hunangi, lime og hvítlauk.  Ég og frumburðurinn ákváðum að slá til og elda þennan girnilega lax (hún þurfti reyndar að vera á fótboltaæfingu, þannig að eldamennskan lenti á mér, sem mér leiddist svo sem ekkert).  Ég kaupi allan minn fisk hjá Kristófer vini mínum í Gallerí fisk (og þannig veit hann auðvitað að ég borða allt of lítinn fisk) og ég fékk þetta fína laxaflak hjá honum.  Það er áralöng hefð á heimilinu að hafa risotto með laxinum (nánast sama hvernig laxinn er matreiddur) og því verður ekki breytt svo auðveldlega.  Með laxinum opnaði ég svo flösku af Montes Alpha Chardonnay 2014, sem fékk Gyllta glasið í fyrra.  Það er fallega strágult í glasinu, unglegt, með fína tauma.  Í nefinu finnur maður fyrst eik, en einnig sítrus, ferskjur, ananas og blóðappelsínur.  Í munni hefur vínið góða fyllingu, smjörkennt með eikartónum, sítrus og fínni sýru.  Smellpassar með laxinum en fer einnig vel með ljósu kjöti og hvítmygluostum.  Frábær kaup (2.999 kr).  Það er óhætt að segja að laxinn sló virkilega í gegn, sem og hvítvínið!

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook