Topp 100-listinn

Þá er hann kominn – topp 100-listi Wine Spectator fyrir árið 2015.  Eins og kom fram fyrir helgi var vín ársins Peter Michael Cabernet Sauvignon Oakville Au Paradis 2012 – Kaliforníuvín í dýrari kantinum (reyndar dýrasta vínið á listanum þetta árið) sem er framleitt í litlu magni og hlýtur að hafa einhvern svakalegan x-faktor, því þetta vín fæst væntanlega ekki í mörgum búðum í heiminum, og verður líklega enn erfiðara að nálgast það eftir þessa útnefningu.  En hvernig lítur listinn út að öðru leyti?
Líkt og oft áður eru ansi mörg vín frá Bandaríkjunum (4 af 5 efstu eru amerísk), en það sem vekur mesta athygli (a.m.k. í Evrópu) er að það eru bara 3 vín frá Bordeaux og 5 Brunello di Montalcino. Fimm koma frá Portúgal og þar af er eitt Madeira og eitt LBV púrtvín, en þau sjást ekki oft á þessum lista. Sextán vín kosta $20 eða minna (ódýrasta á $10), dýrasta vínið kostar $195, en helmingurinn kostar $37 eða minna.  Listinn er því frekar ódýr í ár. Hæsta einkunn er 98 stig, lægst 90 stig sem er lágmarkið til að komast á listann, og það eru 11 vín á listanum með 90 stig.
Í fljótu bragði sýnist mér að fimm vín séu fáanleg hér (reyndar ekki alltaf sami árangur, en sá rétti vonandi væntanlegur á næstunni):

  • #4 – Il Poggione Brunello di Montalcino 2010 (nú er 2009 í hillunum) – 6.600 kr
  • #21 – Cloudy Bay Sauvignon Blanc Marlborough 2014 – 4.499 kr
  • #25 – Quinta do Crasto Douro Superior 2012 (2010 í hillunum) – 2.860 kr
  • #32 – Viña Carmen Cabernet Sauvignon Maipo Valley Alto Gran Reserva 2012 (2011 í vínbúðunum) – 2.667 kr
  • #53 – Descendientes de J. Palacios Bierzo Pétalos 2013 – 3.290 kr

Líklega er þetta nærri eða rétt fyrir ofan meðallag hvað varðar vín sem eru fáanleg hér á landi, og þar sem þrjú þeirra eru á vel viðráðanlegu verði hvet ég alla til að kynnast þessum gæðavínum, og fylgjast með þegar rétti árgangurinn kemur í hillurnar.

Vinir á Facebook