Isole e Olena Chianti Classico 2012

Isole e Olena Chianti Classico 2012Víngerðin Isole e Olena á rætur sínar að rekja til 18. aldar, til vel staðsettra vínekra í hlíðum Chianti í Toscana. Núverandi mynd fékk víngerðin hins vegar um miðja síðustu öld, og á síðustu áratugum hefur eigandinn og víngerðarmaðurinn Paolo de Marchi komið víngerðinni í hóp þeirra bestu í Toscana með frábærum vínum ár eftir ár.  Þekktustu vín hans eru ofurtoscaninn Cepparello og svo vínið sem hér um ræðir – Chianti Classico. Undanfarinn áratugur hefur verið góður í Chianti og það þarf að fara aftur til ársins 2002 til að finna lélegt ár í Toscana.  2010 og 2011 voru sérstaklega góðir, en þó að 2012 nái ekki sömu hæðum þá er það mjög gott ár.

Isole e Olena Chianti Classico 2012 er fallega djúprautt, unglegt að sjá með ágæta dýpt.  Í nefið koma kirsuber, plómur og tóbak, ferskar kryddjurtir og smá pipar.  Vínið er í góðu jafnvægi, kirsuberin og plómurnar koma vel fram og vín helst mjúkt og fínt langt fram í eftirbragðið, þar sem einnig má finna vott af dökku súkkulaði.  Frábært matarvín með nær öllum mat, eða bara til að njóta eitt og sér.
Með þessu víni ætla ég aðeins að breyta einkunnagjöfinni minni og færa mig yfir í það sem aðrir vínskríbentar á Íslandi nota, þ.e. stjörnugjöf.  Að auki geta lesendur sjálfir gefið hverju víni einkunn út frá eigin áliti.

Vínsíðan
(3.750 kr)
Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook