Steikhúsið fær viðurkenningu

Tímaritið Wine Spectator veitir á hverju ári viðurkenningar til veitingastaða sem leggja sig fram um að bjóða gott úrval af vínum.  Þar er lagt mat á það hversu vel saman settur vínlistinn er og hvernig úrvalið falli að matseðli staðarins.  Þessi viðurkenning hefur reyndar hlotið smá gagnrýni undanfarin ár, því veitingarstaðirnir þurfa sjálfir að tilkynna þátttöku, senda inn vín- og matseðla og borga fyrir þátttökuna.  Fyrir nokkrum árum tók blaðamaður nokkur sig til og skráði inn veitingastað sem ekki var til í alvörunni og fékk viðurkenningu fyrir vínlista sem var uppspuni frá rótum.
Hvað um það! Fyrir nokkrum árum hlaut Fjalakötturinn viðurkenningu fyrir vínlistann sinn og í ár er annar íslenskur staður á listanum – Steikhúsið við Tryggvagötu.  Steikhúsið fær viðurkenninguna Award of Excellence, sem er lægsta þrepið og veitt fyrir vel valinn vínlista sem hæfir matseðli bæði hvað snertir verð og stíl.  2.870 staðir fengu þessa viðurkenningu í ár. Næsta þrep er Best of Award of Excellence, sem er veitt stöðum sem fara langt fram úr kröfum lægsta þrepsins og bjóða t.d. upp á nokkra árganga frá toppframleiðendum eða eru með gott úrval frá helstu vínræktarsvæðum heimsins.  850 staðir fengu þessa viðurkenningu í ár. Æðstu verðlaunin eru Grand Award og þau eru veitt stöðum sem leggja mikla rækt við vínlistann sinn og hafa að jafnaði 1500 eða fleiri vín á boðstólum, sem þurfa að vera til í mismunandi stærðum, falla vel að matseðli, en skipulag, framsetning og vínþjónusta þurfa einnig að vera framúrskarandi.  Þessa viðurkenningu hlutu aðeins 73 veitingastaðir víðs vegar um heiminn.
Steikhúsið er því miður ekki með vínlistann sinn á heimasíðunni, en það er bara um að gera að bregða sér út að borða og fara á Steikhúsið!

Vinir á Facebook