Grillmarkaðurinn og Fiskifélagið

saint clair pioneer block 4 pinot noirÉg fékk góðan gest, Peter Elfving frá Svíþjóð, í heimsókn í vikunni og þegar góða gesti ber að garði tekur maður auðvitað vel á móti þeim.  Við fórum fyrst í góðum hópi á Grillmarkaðinn, sem samkvæmt vefnum TripAdvisor á að vera besti veitingastaðurinn í Reykjavík í dag. Það varð heldur enginn fyrir vonbrigðum á Grillmarkaðnum. Í forrétt fékk ég mér grillspjót með skötusel og í aðalrétt var íslensk ali-önd.  Peter fékk sér hrefnu í forrétt og svo hrossalund í aðalrétt (hvorugt á boðstólum á sænskum veitingahúsum og því tilvalið að nota tækifærið að prófa svona framandi rétti!).  Aðrir í hópnum fengu sér svipaða rétti (lamba T-bone barst á tvo diska og gott ef ekki var saltfiskur á einum).  Með þessu drukkum við Saint-Clair Pioneer’s Block 4 pinot noir 2010 sem smellpassaði með öllum þessum réttum!  Nýsjálenskur pinot noir er oft aðeins ávaxtaríkari en sá franski, kannski ekki alltaf jafn mjúkur en getur gengið með margvíslegum mat, líkt og sýndi sig þetta kvöld.  Þó svo að maturinn á Grillmarkaðnum hafi verið mjög góður þá finnst mér stundum að hún Hrefna Rósa sé aðeins að missa sig í kryddunum. Allir réttirnir voru vel samsettir og í góðu jafnvægi þá fannst mér nánast að grillspjótið mitt hefði verið soja/kúmen-blanda með skötuselsáferð.  Öndin var aðeins mildari.  Eftirrétturinn var súkkulaðisprengja með kaffiís, þar sem þjónninn (með leyfi gesta) hellir heitri karamellusósu yfir súkkulaðikúluna sem þá bráðnar yfir kaffiísinn!  Flott að sjá og mjög bragðgott, en kannski aðeins of mikið af karamellu fyrir minn smekk (alls enginn LKL-eftirréttur!).  Annars er matseðillinn mjög girnilegur, hæfilega fjölbreyttur og vínlistinn er góður.  Álagning á vínin verður væntanlega að teljast hæfileg en ég sakna þess að sjá ekki hvaða árgang er um að ræða, enda getur það haft afgerandi áhrif ef maður er að spá í að kaupa flösku sem kostar 10 þúsund eða meira (Þar er nánast ekkert í boði fyrir minna en 6.000 en ýmislegt áhugavert í kringum 8-12.000). Staðurinn fær, þrátt fyrir þessa örlitlu gagnrýni, toppeinkunn frá mér og mig langar strax að fara þangað aftur!  Takk Ómar!
Seinna kvöldið fórum við Peter í Fiskifélagið.  Líkt og Grillmarkaðurinn er Fiskifélagið einn af betri veitingastaðurinn í Reykjavík (skv. TripAdvisor) og við urðum heldur ekki fyrir neinum vonbrigðum þar.  Réttirnir þar bera heiti eins og Söl, Ananas, Lótusrót og Sítrus sem væntanlega vísa til einhvers hráefnis eða áhrifa í hverjum rétti.  Í forrétt fékk ég mér Rauðrófu (þykkt kálfacarpaccio með  rauðrófu (sneiðar og gel), gæsalifrarkremi o.fl.) en Peter fékk sér Söl (ýsa með m.a. harðfiski, kræklingafroði o.fl.).  Við fengum okkur báðir saltfisk í aðalrétt í rétti sem heitir Ananas.  Kryddin voru m.a. hvítsúkkulaðimulningu og íslenskar jurtir en saltfiskurinn var hægeldaður í vanilluolíu.  Bæði forrétturinn og aðalrétturinn leyfðu hráefninu að njóta sín aðeins betur en gert er á Grillmarkaðnum, en ég er samt ekki frá því að saltfiskrétturinn hans Kristó í Gallerí Fisk sé betri!  Með þessu drukkum við Cloudy Bay Marlborough Chardonnay 2011 (ábending til Fiskifélagsins að uppfæra heimasíðuna, og Cloudy Bay er frá Nýja-Sjálandi, ekki Ástralíu).   Fiskifélagið fær líka mjög góða einkunn frá mér og ég er meira en til í að fara þangað aftur.
Á morgun er það svo enn ein ferðin í sænsku Dalina…

Vinir á Facebook