Angelo Gaja

Í nýjasta eintaki Wine Spectator er grein um hinn ítalska Angelo Gaja, sem ásamt Piero Antinori er einn áhrifamesti maðurinn í ítalskri víngerð síðustu áratugina.  Þeir sem þekkja til ítalskra vína vita sjálfsagt að vínin frá Gaja hafa sama status og fyrstu yrkin í Bordeaux hafa í Frakklandi.  Gaja-fjölskyldan hefur lengi framleitt vín í Piedmonte en það var þó fyrst þegar Angelo Gaja tók við að hlutirnir fóru að gerast.  Hann braut allar hefðir í Barbaresco – reif upp vínvið og gróðursetti aðrar tegundir, klippti vel á vaxtartíma og helmingaði uppskeruna en margfaldaði gæðin, lét vínin gerjast í litlum, frönskum tunnum í stað risastórra trétanka og síðast en ekki síst – hann kom ítölskum vínum inn á alþjóðamarkað svo um munaði með því að ferðast út um allan heim og nánast pranga vínum sínum inn á virt veitingahús víða um hem (áður var ítölsk vín nær einungis að finna á ítölskum veitingahúsum).  Víngerð í Barbaresco og nálgum bæjum er nú gjörbreytt og mörg vínin nú í heimsklassa í stað þess að vera ódýr borðvín.  Reyndar má helst gagnrýna Angelo Gaja fyrir að hafa margfaldað verð á ítölskum gæðavínum og öll vínin frá Gaja kosta nú tugi þúsunda hver flaska!  Vínin fá reyndar ávallt hæstu einkunn og getur verið erfitt að nálgast sum þeirra.  Reyndar er eitt vínið fáanlegt á viðráðanlegu verði hér í Svíþjóð – það heitir Promis og er reyndar Toscanavín, en Gaja hefur verið að færa út kvíarnar undarfarin (og hefur reyndar tífaldað framleiðsluna frá því sem var þegar hann tók við stjórnartaumum í fjölskyldufyrirtækinu).  Samkvæmt greininni er kallinn enn á fullri ferð, rétt rúmlega sjötugur, og keyrir sjálfur frá Barbaresco niður til Toscana tvisvar í viku til að fylgjast með gangi mála hjá fyrirtækjum sínum þar.  Fyrir venjulegt fólk mun þetta vera 4-5 tíma keyrsla en kallinn fer þetta á 3 tímum á sínum svarta Audi A6 (minnir mig á annan vínáhugamann sem hefur gaman að af aka hratt á Audi-bifreiðum…).
Fyir þá sem rekast á eintak af Wine Spectator mæli ég eindregið með því að lesa greinina um Angelo Gaja.

Vinir á Facebook