Boeuf a la mode

Þessa helgi hafði ég hugsað mér að vera í Berlín að hlaupa maraþon en hnémeiðsli í vor komu í veg fyrir það.  Þess í stað fór Guðrún til Stokkhólms í kvennahlaup og ég ákvað að elda góðan mat handa henni.
Í gær eldaði ég reyndar lambakórónu með kryddjurtahjúp (uppskrift frá meistara Gutta) sem tókst einstaklega vel.  Hingað til hef ég þeirrar skoðunar að sænskt lambakjöt standi því íslenska langt að baki hvað varðar bragðgæði en ég hef nú loks fundið sænskt lambakjöt sem mér líkar við – marinerað lambakjöt frá Anderson & Tillman (kjötvinnsla hér í Uppsölum).  Ég skolaði þó marineringuna af og kryddaði kjötið samkvæmt uppskriftinni hans Gutta og útkoman var hreint stórkostleg!  Með þess drukkum við Campogiovanni Brunello di Montalcino 2006 – stórkostlegt vín sem fékk 96 punkta í Wine Spectator.   Dásamlegur ilmur af fjólum, sólberjum og leðri ásamt pipar og vott af eik.  Í munni var vínið í fyrstu frekar stíft og tannínin eiga töluvert eftir áður en þau mýkjast almennilega.  Líklega hefur vínið gott af því að fá að liggja 3-5 ár til viðbótar í kælinum.  Það fær samt góða einkunn frá mér – 9,0 – Bestu meðmæli!
Nú er ég að elda Boeuf a la Mode að hætti Juliu Child, með því hef ég carrottes étuvées au beurre og pommes de terre sautées, og í eftirrétt hef ég Créme Brûlée…

Vinir á Facebook