Breyttir tímar

Mig minnir að það hafi verið veturinn 1997-98 að ég smakkaði Opus One í fyrsta skipti.  Opus One er afrakstur tveggja risa í vínheiminum – Baron Phillippe Rothschild og Robert Mondavi, Bordeaux-blanda sem kemur frá Napa Valley.  Mér fannst þetta frábært vín og stundum finnst mér eins og ég geti enn fundið eftirbragðið frá því að ég smakkaði það í fyrsta sinn.  Þá kostaði Opus One u.þ.b. 6.000 krónur í Ríkinu.  Sumarið 1998 borðuðum við Guðrún á Grillinu þegar tengdó og svili minn áttu afmæli og þá keypti ég flösku af Opus One fyrir sama pening og í Ríkinu (ég hafði verið í héraði um sumarið og átti smá pening…).  Bekkurinn minn í læknadeildinni fór svo á jólahlaðborð í Skrúð næsta vetur og þá létum við félagarnir (ég, Ívar og Gunni Pé) senda eftir Opus One úr Grillinu.  Við drukkum tvær flöskur þetta kvöld og ég er alveg viss um að við borguðum bara fyrir aðra flöskuna!  Eftir að við höfðum svo tekið lokaprófin í læknadeildinni vorið eftir þá splæstum við í eina Opus í Ríkinu og drukkum hana með matnum í partíinu um kvöldið.  Þá var ég hálfblankur námsmaður, nýútskrifaður en hafði samt efni á Opus One.  Í dag er öldin önnur – síðast þegar Opus One fékkst í Ríkinu minnir mig að flaskan hafi kostað hátt í 30 þúsund krónur.  Ég get pantað flöskuna í vínbúðina mína hér í Uppsölum fyrir litlar 2.100 sænskar krónur (um 35.000 ISK) sem mér finnst ansi mikið þrátt fyrir að vera með mun hærri tekjur en ég hafði þarna um árið.  Bara ef launin mín hefðu fylgt Opus One-vísitölunni!
Ástæða þess að ég fór að rifja upp þessa Opus-sögu er sú að í nýjasta Wine Spectator er grein um Tim Mondavi, son áðurnefnds Roberts Mondavi.  Mondavi-fjölskyldan var víst eitthvað ósátt um hvernig átti að fara með Mondavi-fyrirtækið og endaði á því að selja allt saman fyrir rúman milljarð dollara.  Bræðurnir Tim og Michael Mondavi eru nú farnir að framleiða vín undir eigin nafni og virðast ekki vera neinir eftirbátar föður síns í þeim efnum.  Tim framleiðir vín undir nafninu Continuum og Michael undir eigin nafni.  Enn sem komið er eru þessi vín á viðráðanlegu verði  en auðvitað ófáanleg á Íslandi og í Svíþjóð.  En það er væntanlega bara tímaspursmál hvenær það fer fyrir þeim líkt og Opus One og þau verða aðeins fyrir útvalda.  Vonandi nær maður samt að smakka eins og eina flösku áður en það gerist…

Vinir á Facebook